15.6 C
Selfoss

„Glapræði að byggja vindorkuver á virku eldfjallasvæði“

Vinsælast

Í fréttatilkynningu frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi segir að þann 17. janúar sl. hafi Landsvirkjun auglýst fyrirhugað útboð á vindmyllum fyrir Búrfellslund og að Sveitarstjórn mótmæli harðlega vinnubrögðum Landsvirkjunar í undirbúningi að Búrfellslundi og bendir á að stjórnvöldum sé ekki heimilt að veita leyfi tengt Búrfellslundi samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.

„Búrfellslundur sem samþykktur var í nýtingarflokk af Alþingi í júní 2022 var hannaður í mismunandi útfærslum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi Ytra. Í umhverfismatinu sem liggur til grundvallar afgreiðslu Rammaáætlunar og Alþingis er gert ráð fyrir að nýta núverandi raforkuinnviði svæðisins sem að megninu til eru í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Virkjanakosturinn Búrfellslundur sem samþykktur var í nýtingarflokk samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun 48/2011 er því háður samþykki bæði Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings Ytra. Þann 8. júní 2023 nýtti sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps sér 7. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlunar nr. 48/2011 og fór fram á frestun á virkjanakostinum. Skýrt kemur fram í lögunum að sé farið fram á frestunina skuli fara með virkjanakostinn eins og hann sé í biðflokki og því er stjórnvöldum ekki heimilt að veita leyfi tengt virkjanakostinum,“ segir í tilkynningunni.

Þá telur sveitarstjórnin það ámælisvert að Landsvirkjun skuli reyna að fara í kringum lög og vinna gegn hagsmunum nærsamfélagsins. Slík vinnubrögð séu ekki til þess að skapa sátt um komandi orkuöflun sem nauðsynlegt sé að ráðast í.

Óbætanlegt tjón til framtíðar

Í tilkynningunni er einnig minnst á að Búrfellslundur sem Landsvirkjun vinni að muni verða gríðarlegt inngrip í hálendi Íslands með sjónrænt áhrifasvæði í kringum 1.000 ferkílómetra. „Búrfellslundur mun takmarka möguleika Skeiða- og Gnúpverjahrepps til uppbygginingar í ferðaþjónustu og útivist á svæðinu. Sú útfærsla af Búrfellslundi sem nú er kynnt er á sveitarfélagamörkum Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings Ytra. Ljóst er að ekkert sveitarfélag getur samþykkt að slík uppbyggingaráform verði keyrð áfram gegn vilja sveitarfélags. Fyrirhugaður Búrfellslundur er innan miðhálendislínunnar. Aðeins rúmir 2 km eru frá skilgreindu svæði Búrfellslundar að Þjóðlendunni í Þjórsárdal þar sem er að finna stærstu friðlýsingu minja á Íslandi. Bygging Búrfellslundar myndi vinna gegn hagsmunum nærsamfélagsins og valda óbætanlegu tjóni til framtíðar.“

2,5 milljarðar á ári eða 1,7 milljarður á dag

Að auki segir að Búrfellslundur muni valda margfalt meira tjóni fyrir íslenskt samfélag heldur en sú orka sem hann eigi að skapa til skamms tíma. Búrfellslundur muni framleiða 440 GWst á ári og miðað við meðalverð Landsvirkjunar á rafmagni þýði það 2,5 milljarða í tekjur á ári. „Til að setja hlutina í samhengi þá voru tekjur ferðaþjónustu á Íslandi árið 2022 1,7 milljarður á dag eða 635 milljarðar á ári samkvæmt upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu. Hálendi Íslands er mun verðmætara fyrir fyrir þjóðina óraskað í ferðaþjónustu og útivist heldur en að raska því með vindmyllum sem hægt er að staðsetja um land allt. Þess má geta að mun meiri orka fengist með því að laga flutningskerfi raforku og nýta ónýtt afl í núverandi virkjunum Landsvirkjunar.“

Sveitarstjórn þykir einnig mikilvægt að benda á að um 50% af uppsettu afli Landsvirkjunar sé á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, í kringum 1.050 MW, þar sem Búrfellslundur á að rísa. Flestir ónýttir virkjunarkostir Landsvirkjunar í vatnsafli séu á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og hægt að auka uppsett afl með nýju vatnsaflsvirkjununum og stækkun á núverandi vatnsaflsvirkjun upp í u.þ.b. 1.800 MW.

Glapræði að dreifa ekki áhættunni

Þá segir að í ljósi náttúruhamfara á Reykjanesi sé glapræði að ætla að byggja vindorkuver sem er óháð staðsetningu á virku eldfjallasvæði og á sama stað og flestar vatnsaflsvirkjanir landsins, frekar en að dreifa áhættunni og leggja áherslu á að staðsetja vindorkuver á öðrum svæðum en Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Áhættan af því að byggja Búrfellslund sé einfaldlega of mikil með þjóðaröryggi landsins í húfi.

Nýjar fréttir