-7.8 C
Selfoss

Annáll Krabbameinsfélags Árnessýslu 2023

Vinsælast

Þau eru fá lýsingarorðin sem ná yfir hversu stórkostlegt árið 2023 hefur verið í starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu.

Við lögðum af stað inn í árið með margar stórar hugmyndir og þétta dagskrá sem saman stóð af fjölbreyttum viðburðum, fræðslum, námskeiðum og fjölmörgum tækifærum til samveru og nærandi félagsskapar.

Á vorönninni fengum við Hlyn Níelsson krabbameinslækni í heimsókn til okkar þar sem hann fræddi okkur um geislameðferð, árangur og áhrif. Við fengum Dr. Erlu Björnsdóttur til okkar með fyrirlestur um svefn, Ásthildi Garðarsdóttur með fyrirlestur um jákvæða sálfræði, Elfar Þór Bragason sálfræðing með fyrirlestur um kvíða, Þurý Gísla kynnti okkur fyrir Reikiheilun auk þess sem hún bauð félagsmönnum að þiggja tíma í slíkri meðferð. Vorferðin var farin á Akranes í júní og boðið var í sumar kaffi á Eyraveginum áður en okkar öflugu sjálfboðaliðar fengu sitt verðskuldaða sumarfrí.

Okkar skemmtilega og árlega samstarf við GK bakarí í mottumars vakti verðskuldaða athygli á mottumars daginn og voru margir sem gæddu sér á nýsteiktum ástarpungum með morgunkaffinu þann daginn.  

Í apríl var Krabbameinsfélag Árnessýslu gestgjafar Styrkleikanna í annað sinn, en viðburðurinn var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi árið 2022 og var félagið þá einnig gestgjafi viðburðarins. Við nutum aðstoðar frá gríðarlega mörgum sjálfboðaliðum úr okkar öfluga samfélagi varðandi skipulag og framkvæmd viðburðarins. Það væri of langt mál að telja upp alla þá einstaklinga og fyrirtæki sem komu að viðburðinum með einum eða öðrum hætti en allir eiga þeir okkar innilegustu þakkir skilið. Allt listafólk sem kom fram á viðburðinum lagði fram vinnu sína endurgjaldslaust og fá einnig okkar bestu þakkir.

 

Í byrjun haustannar komu sjálfboðaliðar ferskir til starfa og stóðu áfram vaktina í opnu húsi þrjá daga vikunnar þar sem tekið er á móti gestum með rjúkandi kaffi og oft gómsætu bakkelsi. Dagskráin var ekki síður fjölbreytt á síðustu fjórum mánuðum ársins en október var þar mest áberandi. Helgi Hafsteinn krabbameinslæknir heimsótti karlahópinn okkar og átti fræðandi spjall um karla og krabbamein. Bleika boðið var haldið í byrjun október á Hótel Selfossi og voru rúmlega fjögur hundruð manns sem sóttu það og gæddu sér á góðum mat frá veitingamanninum Tómasi Þórodds. Happdrættisvinningarnir í Bleika boðinu verða sífellt veglegri og fóru fjömargir gestir heim með glæsilega vinninga. Bleika boðið er stærsti fjáröflunarviðburður félagsins og hefur á síðustu fimm árum fest sig í sessi í starfsemi félagsins. Félagið tók virkan þátt í vitundarvakningunni sem fer fram á landsvísu í bleikum október um krabbamein hjá konum. Fulltrúar félagsins voru þátttakendur í bleikum messum, skreyttu bæinn bleikan og tóku á móti gestum á Eyraveginn með bleikum veitingum.

Endurhæfing á vegum félagsins tekur á andlegum,-líkamlegum,-og félagslegum þáttum og hefur félagið notið starfskrafta fagaðila sem hafa komið að endurhæfingunni. Félagið hefur einnig notið einstakrar samvinnu við Crossfit Selfoss og Yoga Sálir þar sem líkamleg endurhæfing hefur farið fram.

Í desember var lögð áhersla á samveru og að hlúa að andlegu hliðinni því raunin er því miður sú að sorgin og söknuðurinn verður oft fyrirferðarmeiri yfir hátíðina. Boðið var uppá sálgæslu sem leidd var af Möggu Steinu sálgæti, piparkökuhús voru máluð og skreytt í samveru með börnunum, félagsmenn bjuggu til hurðakransa, nutu fræðslu um núvitund og gæddu sér á gómsætum jólamat í Tryggvaskála í góðra vina hópi.

Félagið naut ríkulegra styrkja á árinu, bæði frá félagasamtökum, einstaklingum, fyrirtækjum, skólasamfélagi Fsu og fjölskuldum. Slíkir styrkir eru okkur gríðarlega mikilvægir til áframhaldandi uppbyggingar á starfseminni auk þess sem styrkirnir gera okkur kleift að halda úti þeirri öflugu starfsemi sem Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur haldið úti síðustu ár. Það er ómetanlegt af finna og upplifa samhuginn í samfélaginu til málefnisins.

Við horfum til komandi árs með jákvæðum huga, sjáum tækifæri til að eflast og mæta þörfum okkar samfélags á ýmsan hátt. Áhersla verður lögð á að mæta þörfum aðstandenda og fjölskyldna á nýju ári. Þegar ástvinur okkar greinist með krabbamein þá hefur það áhrif á okkur öll og stundum þurfum við aðstoð eða leiðbeiningar um hver okkar hlutverk eru eða hvernig við getum tekist á við tilfinningarnar sem fylgja því að ástvinur okkar veikist.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með fréttum af starfsemi okkar á heimasíðunni www.krabbameinsfelagarnessyslu.net og á facebook síðu félagsins.

Með innilegum þökkum fyrir dýrmætar samverur og stuðning á líðandi ári.
Megi nýja árið færa ykkur góða heilsu.

 

Stjórn Krabbameinsfélags Árnessýslu.

Nýjar fréttir