Þann 14. desember sl. birti Sveitarfélagið Árborg fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 á vefsíðu sinni. Í áætluninni er gert ráð fyrir að hækkun á gjaldskrám verði að jafnaði 7,7% til samræmis við verðlagsbreytingar, álagningarhlutfall útsvars hækki um 1,474% og álagningarhlutfall fasteignaskatts hækki um 0,046% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 0,05% af atvinnuhúsnæði. Fráveitugjald sem er 0,10% af fasteignamati hækkar í 0,18% ásamt því að vatnsgjald hækkar úr 0,15% upp í 0,172%. Þá kemur sorphirðugjald til með að hækka um 3% á milli ára.
Sömuleiðis er tekið fram að þóknun bæjar- og nefndarfulltrúa komi til með að haldast óbreytt og vilji bæjarstjórn með því stíga fram með góðu fordæmi í erfiðum hagræðingaraðgerðum innan sveitarfélagsins. Samhliða því verði haldið áfram að horfa til möguleika á sameiningu nefnda og starfshópa ásamt fækkun funda, án þess þó að það hafi veruleg áhrif á afgreiðsluhraða stjórnsýslunnar.
Í greininni segir að í fjárhagsáætluninni sé áhersla lögð á að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa. Mennta- og velferðarmál og áframhaldandi innleiðingu laga um þjónustu í þágu farsældar barna séu höfð í lykilhlutverki. Sú breyting verði á að 4 ára börn fái rétt til frístundastyrks. 4-5 ára börnum verði þar með veittur frístundastyrkur að upphæð 20 þúsund en 6-17 börnum ára býðst styrkur að upphæð 45 þúsund.
„Það má síðan ekki gleyma þeim tækifærum sem búa í samfélaginu. Árborg hefur verið í örum vexti síðastliðin ár og því er það sveitarfélaginu afar dýrmætt að rógróin fyrirtæki auka umsvif sín og byggja upp til framtíðar auk þess sem ný fyrirtæki eru sífellt að bætast við flóruna. Fjölbreytt byggingaráform eru í farvatninu og mikil trú er á svæðinu. Uppbygging við miðbæ Selfoss er að hefjast að nýju sem mun fjölga enn frekar atvinnutækifærum á svæðinu. Við erum bjartsýn á að ná utan um reksturinn á næstu árum og höldum ótrauð áfram þó að tímabundið blási á móti,“ er haft eftir Fjólu St. Kristinsdóttur, bæjarstjóra Árborgar.