1.7 C
Selfoss

Eldsvoðinn alls ekki það versta sem þau hafa gengið í gegnum síðustu 5 árin

Það var rétt fyrir opnun, þann 6. nóvember síðastliðinn, sem eldur læsti um sig í loftræstingu veitingastaðarins Krisp á Selfossi, en til stendur að opna á ný eftir viðgerðir og endurbætur á morgun, föstudaginn 15. desember.

„Það vildi þannig til að við hjónin áttum einmitt 5 ára brúðkaupsafmæli þennan dag, svo við vorum heima í rólegheitum þegar við fengum símhringingu frá  starfsmanni. Við sátum  bara saman á sófanum að drekka kaffi í rólegheitum þegar símtalið kom,” segir Birta Jónsdóttir, annar eigandi Krisp í samtali við DFS.is.

„Starfsfólkið í eldhúsinu hafði orðið vart við reyk í loftræstikerfi staðarins. Siggi var einstaklega fljótur að bregðast við og hljóp tafarlaust yfir á Krisp. Sem betur fer búum við bara nokkrum húsum frá svo hann var mættur nógu snemma á staðinn til að gera heilmikið gagn. Ég var sjálf mætt út eftir 3 mínútum seinna en þá blasti við mér eldur í loftræstingunni og fullt plan af slökkviliðsmönnum. Siggi var þá ennþá inni að tæma úr síðustu slökkvitækjum, ásamt tveimur öðrum, en stuttu seinna var slökkviliðið tekið yfir aðgerðum og hann bættist í hópinn sem stóð úti á plani með mér,“ bætir Birta við.

„Nokkuð súrrealísk upplifun“

„Eftir nokkra stund ákvað ég að rölta heim til okkar með starfsfólkinu á meðan Siggi fór á HSU til að fá smá súrefni. Hann var sem betur fer bara með væg einkenni reykeitrunar og kom því fljótlega og bættist svo í hópinn til okkar heim í stofu. Við sátum svo bara hér, drukkum kaffi og spjölluðum saman á meðan við fylgdumst með slökkvistarfinu út um stofugluggann okkar sem snýr að einmitt að þeirri hlið Krisp sem eldurinn geysaði í. Þetta var nokkuð súrrealísk upplifun og skrýtinn dagur.“

Þá segir Birta að þrátt fyrir skjót viðbrögð, bæði þeirra og viðbragðsaðila, hafi bruninn náð að valda töluvert miklu tjóni á litla eldhúsinu þeirra á stuttum tíma. „Loftræstingin var algerlega eyðilögð auk þess sem töluvert vatnstjón, sem varð við slökkvistarfið, eyðilagði flest öll eldhústækin okkar. Þannig að þrátt fyrir að við hefðum í upphafi bundið miklar vonir við að getaopnað aftur innan viku eða tíu daga, varð það því miður ekki raunin.“

Nýttu tímann vel

„Við áttuðum okkur fljótt á að þetta yrði töluvert lengra ferli en við gerðum ráð fyrir í upphafi,“ útskýrir Birta. „En við ákváðum bara að horfa á björtu hliðarnar og nýta þennan tíma til að fara í endurbætur í leiðinni. Þannig að á meðan iðnaðarmenn unnu að því að rífa eldhúsið í sundur, til að hægt væri að koma því aftur saman, nýttum við tímann í að lakka borð, stóla, mála veggi og fleira í þeim dúr.“

Sigurður Ágústsson og Birta Jónsdóttir, eigendur Krisp Restaurant á Selfossi árið 2018.
Ljósmynd: ÖG.

Síminn hefur varla stoppað

„Það er svo ótal margt sem hefur á daga okkar drifið síðan við opnuðum Krisp og þótt ótrúlegt megi virðast þá er þetta alls ekki það versta sem við höfum gengið í gegnum síðan á þessum 5 árum. Við höfðum tekist á við Covid, dauðsföll í nánustu fjölskyldu og svo greindist Siggi með krabbamein árið 2020 með öllum þeim meðferðum og átökum sem því fylgir. Þannig að við ætlum að líta á þetta sem einskonar nýja byrjun og tækifæri sem gerði okkur kleift að gera litla staðinn okkar fallegri, endurnýja eldhúsið og bæta nokkrum nýjum réttum á matseðilinn í leiðinni. Síminn hefur varla stoppað hjá okkur síðan þetta gerðist og fólk hefur verið ótrúlega hughreystandi og skilningsríkt. Við lítum því björtum augum til framtíðar og bíðum spennt eftir að geta opnað aftur fyrir gestum og gangandi á föstudaginn.“

Fleiri myndbönd