-3.4 C
Selfoss

Aðventuganga og jólatré í Öndverðarnesi

Alviðra, náttúruverndar og fræðslusetur Landverndar býður til aðventugöngu um Öndverðarnes við Sogið laugardaginn 16. desember.

Gengið verður að furulundinum utarlega á nesinu og þar geta gestir höggvið sjálfsáðar furur sem hafa komið sér fyrir í birkikjarrinu sem umlykur Öndverðarnesið. Gangi vel að finna furutré verða þau boðin til kaups þegar komið er heim í bæ.

Gangan hefst við Náttúruverndar- og fræðslusetur Landverndar í gamla bóndabænum að Alviðru kl. 13:00.

Eftir göngu verður boðið upp á kakó og piparkökur í bænum. Búið er að koma upp jólatré í hlöðunni og leiðsögumaðurinn mætir með gömlu harmonikkuna sína ef áhugi er fyrir að ganga í kringum tréið. Börnin eru því hjartanlega velkomin. Hin klassíska bók Gunnars Gunnarssonar, Aðventa, verður einnig við hendina ef andinn kemur yfir okkur.

Leiðsögumaður verður Tryggvi Felixson. Honum þætti vænt um að fá tölvupóst eða símaskilaboð frá þeim sem hyggjast taka þátt í göngunni: tryggvifel@gmail.com, sími 699 2682

Öndverðarnesið er gróðursælt og um það liggja ágætlega merktir göngustígar. Á góðum dögum má njóta útsýnis á Ingólfsfjall og Sogið, vatnsmestu lindá landsins. Hún sameinast Hvítá við enda Öndverðarness og saman mynd þessi tvo vatnsföll vatnsmestu á landsins, Ölfusá.

Nýlega var samið um uppskiptingu á jörðunum Öndverðanesi II og Alviðru þannig að Landvernd annast Alviðru og Héraðsnefnd Árnesing fer með Önverðarnesið. Héraðsnefndin hefur veitt Landvernd heimild til að taka þau tré á nesinu sem ekki falla að náttúruverndarstefnu svæðisins. Stefnt er að því að viðhalda náttúrulegum birkigróðri á Öndverðarnesi og því er áformað að fella þau tré sem sá sér útfyrir sjálft skógræktarsvæðið.

Fleiri myndbönd