2.8 C
Selfoss

Samvinna námsgreina í einstökum viðburði

Vinsælast

„Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um umhverfisvernd, endurnýtingu og sjálfbærni. Gull getur til dæmis leynst í gamalli verðlausri flík eða í gleymdum efnisbút” segir Agnes Ósk Snorradóttir námsráðgjafi við FSu og hugmyndasmiður. Tilefni ummælanna var tískusýning sem nemendur í hársnyrtiiðn og áfanganum Hönnun & endurvinnsla héldu í Bragganum á Eyrarbakka fimmtudaginn 27. nóvember síðastliðinn. Hér var því um þverfaglega samvinnu að ræða milli kennslugreina þar sem þeir uppskáru afrakstur námsvinnu annarinnar.

Nemendur undir stjórn Guðbjargar Bergsveinsdóttur fengu það verkefni að endurhanna flík eða búa til nýja flík úr gamalli eða afgangs efnisbútum. Farið var í Nytjamarkaðinn og leitað að efnivið. Flíkur og efni skoðuð í þeim tilgangi að gefa þeim nýtt líf. Nemendur í hársnyrtiiðn undir stjórn Örnu Árnadóttur skoðuðu myndir af flíkunum og ígrunduðu hvaða hárgreiðsla myndi henta þeirri flík sem módelið sýnir og heildarhugmyndinni á bak við sýninguna.

Á önninni fengu nemendur í endurvinnslu & hönnunar áfanganum heimsóknir frá Ástu Guðmundsdóttur fatahönnuði og heimsóttu hana á vinnustofu hennar á Eyrarbakka. Með því fengu þeir skapandi innsýn í störf fatahönnuðar sem hefur mikið unnið með endurvinnslu á textíl. Snemma á önninni heimsótti nemendahópurinn ásamt kennurum, Agnesi námsráðgjafa í Gömlu kartöflugeymsluna á Eyrarbakka. Sú heimsókn var hluti af heildarferlinu, til að skoða aðstæðurnar þar sem sýningin færi fram, fá hugmyndir og sjá fyrir sér hvernig flíkurnar myndu koma út í óvenjulegu umhverfi.

„Spennustigið var hátt þegar stóri dagurinn rann upp” segir Agnes Ósk. „Módel mættu í hárgreiðslu kl. 11 um morguninn. Spennan jókst og allur nemendahópurinn mætti eftir hádegi í Gömlu kartöflugeymsluna. Æfð voru þrjú rennsli undir styrkri stjórn kennara og Ástu. Nokkrir nemendur skólans mættu á svæðið og stilltu upp græjum til þess að taka upp sýninguna.”

Svo þegar klukkan sló 6 að kvöldi var hátíð í bæ. Prúðbúnir ættingjar, vinir þátttakenda ásamt starfsfólki skólans voru mætt á svæðið og óhætt að segja að tískusýninginn FLÍKUR FÁ FRAMTÍÐ hafi slegið í gegn. Andrúmsloftið var hlaðið spennu, áskorun, gleði og eftirvæntingu og í lokin, sigrum.

„Það að halda tískusýningu er ekki eitthvað sem nemendur gera á hverjum degi” segir Agnes Ósk að lokum. „Allt ferlið og samvinna milli námsgreina gerir þennan viðburð einstakan og verður örugglega gott veganesti fyrir nemendur og skólastarf í FSu.”

aós / jöz

Nýjar fréttir