0 C
Selfoss

Glæpasögur mega alveg vera krassandi

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Kristjana Hallgrímsdóttir

Kristjana Hallgrímsdóttir er fædd í Reykjavík en hefur alla tíð búið á Selfossi. Hún kennir unglingum íslensku og almenna skólafærni. Hún kláraði grunnskólagönguna á Selfossi. Fór þá í FSu og lét svo staðar numið eftir BA-gráðu í íslensku sem og kennsluréttindin og hefur kennt allar götur síðan. Útivist er henni mjög að skapi sem og hreyfing almennt. Ganga með hundana á Snæfoksstöðum eða bara hvar sem er úti í náttúrunni bætir allt að hennar mati.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Hér verð ég að fá að nefna bæði bækur sem ég les og hlusta á. Ég var að ljúka við að lesa Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur, fékk hana hjá vinkonu. Ætla að ná mér í næstu bók í þessari seríu, Stelpur sem ljúga eftir sama höfund. Annars var ég að klára hlustun á Blóðmeri eftir Steindór Ívarsson og hef ákveðið að að hlusta næst á Þegar fennir í sporin eftir sama höfund. Þá hafa fleiri en tveir nefnt við mig Fimmtudagsmorðklúbbinn eftir Richard Oman sem áhugaverða, bók. Hún gæti allt eins orðið næst.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Glæpasögur höfða mest til mín og þær mega alveg vera dálítið krassandi. Þar eru Stig Larsson og Stefán Máni ofarlega á blaði. Bækur um deild Q eftir Jussi Adler-Olsen voru sömuleiðis fín afþreying. Ég las spennusögur Yrsu og Arnalds hérna fyrst en hef ekki gert það núna í smá tíma. Svo finnst mér líka gaman að hlusta á bækur eins og Sjö systur eftir Lucindu Riley og er ekki búin með þær allar, Líkkistusmiðirnir, Húðflúrarinn í Auschwitz og fleiri. Mér finnst gaman að lesa allskonar verk í bland en er meira á glæpasagnavagninum.

Varstu dugleg að lesa sem barn?

Ég las mjög mikið sem barn og unglingur. Fór mikið á héraðsbókasafn Árnesinga sem var þar sem húsið Bifröst er núna, enda stutt að fara. Hef alltaf elskað að vera á bókasöfnum og skoða bækur af öllum gerðum og bóka- og ritfangabúðir eru líka í miklu uppáhaldi. Þær bækur sem ég las mest og þá aftur og aftur voru Millý, Mollý Mandý, Gunna barnfóstra og Lotta flytur að heiman. Bækur Astrid Lindgren og Enid Blyton voru mjög vinsælar. Næst tók Ísfólkið við, Dýragarðsbörnin og bækur um ungmenni og fyrstu ástina. Get vottað það hér að þær eldast ekki vel þessar síðastnefndu. Þá las ég Grasið syngur eftir Doris Lessing þegar ég var í framhaldsskóla og það var geggjaður lestur sem hafði mikil áhrif á mig. Svo las ég lítið sem ekkert í nokkur ár, á námsárunum. Les meira núna og hlusta líklega aðeins meira.

En er eitthvað sérstakt sem einkennir lestrarvenjur þínar?

Ég les meira yfir vetrartímann en hlusta meira yfir sumartímann. Þar spilar útivera stórt hlutverk en ég hlusta mikið þegar ég er í garðinum og er að æfa mig í að hlusta þegar ég er að hlaupa og á göngu. Ég les mest fyrir svefninn en gef mér líka stund til þess á öðrum tímum, sérstaklega í skammdeginu. Ég hlusta hins vegar hvenær sem er dags, engin stund umfram aðra. Þá kaupi ég mér iðulega bækur á leið til útlanda og les, fer reyndar eftir hvers lags ferð er í gangi.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Þar koma glæpasagnahöfundarnir sem ég nefndi hér að ofan sterkir inn. Auður Ava Ólafsdóttir og Hallgrímur Helgason eru líka ofarlega. Ég hlustaði á Hallgrím lesa bækurnar sínar Sextíu kíló af sólskini og af kjaftshöggum. Það var hrein unun að hlusta á. Mæli með því. Jón Kalman er líka einn af mínum uppáhalds en mest þó fyrir bókina sína Sumarljós og svo kemur nóttin. Þá hef ég hlustað allar bækur Óskars Guðmundssonar sem eru inni á Storytel, það segir líklega eitthvað og Hildur Knútsdóttir er líka í ákveðnu uppáhaldi hjá mér. Eva Björg Ægisdóttir er í dálitlu uppáhaldi núna sem og Steindór Ívarsson.

Hefur bók einhvern tíma rænt þig svefni?  

Já bækur hafa sko rænt mig svefni. Karlar sem hata konur eftir Stig Larsson og sömuleiðis Húsið eftir Stefán Mána rændu mig svefni sitthvor jólin. Þá hlustaði ég á Blóðmeri Steindórs Ívarssonar nánast í einni beit.

En að lokum Kristjana, hvernig rithöfundur værir þú sjálf?

Glæpasagnahöfundur. Engin spurning.

Nýjar fréttir