Örfáum mánuðum eftir að heimsendingarþjónustu Wolt fyrir veitingastaði og smávöru var hleypt af stokkunum í Reykjavík er búið að opna nýtt sendingarsvæði fyrir Hveragerði og Selfoss.
„Við höfum fengið frábærar móttökur frá bæði fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi. Eftir að hafa breitt úr okkur um allt höfuðborgarsvæðið þá hófum við starfsemi í Reykjanesbæ í október og núna getum við loksins boðið leiftursnöggar heimsendingar fyrir heimili og fyrirtæki á Selfossi og í Hveragerði. Nú í upphafi eru Selfoss og Hveragerði sjálfstæð þjónustusvæði en það er möguleiki á að við munum sameina svæðin til að gera viðskiptavinum kleift að panta vörur frá öðrum staðnum yfir á hinn,“ segir Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt á Íslandi.
Auk vinsælla veitingastaða á borð við KFC, Takkó, Hipstur og Pylsuvaginn geta viðskiptavinir einnig pantað nýskorin blóm frá Blómaborg, ís frá Bongó og bakkelsi og brauð frá Almari bakara. Í heildina býður Wolt hraða heimsendingarþjónustu frá 24 fyrirtækjum á Selfossi og í Hveragerði.
„Allt frá því við hófum rekstur á Íslandi höfum við stefnt að því að bjóða þjónustuna sem víðast og að gefa Íslendingum sama aðgengi að heimsendingarþjónustu og þekkist víða í stórborgum. Móttökurnar á Selfossi og í Hveragerði eru frábærar. Við bjóðum núna heimsendingu frá nánast öllum veitingastöðum á svæðinu sem er alveg einstakt. Við erum líka spennt fyrir því að geta bætt fleiri stöðum við til að efla vöruúrval og stuðla að uppbyggingu fyrirtækjanna á svæðinu,“ segir Elisabeth.
Wolt hóf starfsemi sem fyrsta verkvangsfyrirtækið (e. Platform-Company) í Reykjavík í byrjun maí sl. Var Hafnarfirði og Mosfellsbæ bætt við í ágúst og Reykjanesbæ í október. Þjónusta Wolt nær í dag til um 75% þjóðarinnar. Á meðal vinsælustu veitingastaðanna á Wolt eru KFC, Pizzan, Nings og Arabian Taste.