Kvenfélagið Eining í Holtum stendur fyrir árlegri aðventuhátíð sinni fyrsta sunnudag í aðventu, þann 3. desember nk., kl. 13:00 – 16:00. Hátíðin er haldin að Laugalandi í Holtum.
Á hátíðina kemur handverksfólk víða af Suðurlandi og býður vörur sínar til sölu auk þess sem hægt verður að versla matvörur úr héraði beint af framleiðendum. Spunasystur, sem er hópur fólks sem kemur saman reglulega og vinnur úr íslensku ullinni, verða á staðnum og spinna auk þess að selja handspunnið band. Rithöfundarnir Harpa Rún Kristjánsdóttir og Fanney Hrund Hilmarsdóttir lesa úr nýútkomnum bókum sínum og hægt verður að versla bækur frá bókaútgáfunni Króníku beint af þeim. Grétar í Áshól, harmonikkuleikari, spilar fyrir gesti og mögulega láta söngfuglar úr nærsveitinni sjá sig.
Kvenfélagið verður með sína vinsælu hlutaveltu til styrktar barnasjóði Einingar (engin núll!) auk þess að vera með kaffisölu og fer það sem safnast til góðra málefna.
Á staðnum verður skiptibókamarkaður og eru gestir hvattir til að koma með löngu lesnar bækur og fá aðrar bækur í staðinn.
Síðast, en ekki síst, þá mun séra Halldóra Þorvarðardóttir segja nokkur orð áður en kveikt verður á jólatréi Laugalandsskóla og vonandi sjá einhverjir jólasveinar sér fært að mæta.
Aðventuhátíðin að Laugalandi er orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra Sunnlendinga, enda gefst þarna gott tækifæri til að versla einstakar jólagjafir og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum í aðdraganda jóla.
Enginn aðgangseyrir og allir hjartanlega velkomnir!