Það var líf og fjör þegar kynning á verkefninu YAP eða Young Athlete Project fór fram í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi 7. nóvember sl. Leikskólar á Suðurlandi fengu boð um að senda fulltrúa og við erum mjög þakklát þeim sem mættu og sýndu áhuga á verkefninu.
Eftirtaldir 8 leikskólar sendu fulltrúa;
Goðheimar, Hulduheimar auk Jötunheima á Selfossi. Kerhólsskóli, – leikskóladeild, Grímsnes og Grafningshreppi. Bergheimar, Þorlákshöfn. Bláskógaskóli, Laugarvatni, Leikskólinn Laugalandi, Rangárvallasyslu og Mánaland, Vík í Mýrdal
Tveggja og þriggja ára börn sýndu færni sína í þrautabraut undir stjórn Sigurlínar Jónu Baldursdóttir iþróttakennara á Jötunheimum. Börnin hituðu upp í járnbrautarlest og voru vel undirbúin þegar kom að æfingum sem þau leystu með stæl. Sigurlín sagði frá YAP starfi í leikskólanum og ítrekaði gildi þess að horfa til jaðaráhrifa hreyfiþjálfunar, s.s. félagsfærni, málþroska og annars náms. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi ræddi um tilkomu YAP og innleiðingarferlið á Íslandi. Heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú hefur verið leiðandi í YAP verkefninu frá 2015 og fulltrúar skólans, þær Ásta Katrín Helgadóttir íþróttakennari og Þóra Sigrún Hjaltadóttir leikskólastjóri sögðu frá innleiðingu YAP í skólastarfið. Þær sögðu að YAP verkefnið hafi ekki aðeins haft jákvæð áhrif á líkamsástand barnanna heldur ekki síður á félagslega færni, málþroska, námsfærni og sjálfstraust. Skógarási eru 60% barna tvítyngd og YAP hefur reynst mjög áhrifaríkt verkfæri við íslenskukennslu þar sem bornin vinna saman í leik og æfingum. Ýmsir námsþættir hafa verið tengdir YAP verkefninu s.s. lestur og stærðfræði og kennarar geta nýtt verkfærakistu YAP eins og hentar. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Skógarási sýndi að foreldrar töldu YAP hafa haft mjög jákvæð áhrif á börnin og kennarar voru ánægðir með hvernig YAP hafði skapað nýtt tækifæri til samstarfs við íþróttakennarann
Hvað er YAP og hversvegna getur það nýst leikskólum á Íslandi?
Verkefnið sem byggir á hreyfiþjálfun og snemmtækri íhlutun, er á vegum Special Olympics International og hefur verið innleitt á Íslandi frá árinu 2015. Þar sem þetta er alþjóðaverkefni er tekið mið af því að hægt sé að þróa það áfram, hvar í heiminum sem er. Uppsetning kennsluefnis er skýr og aðgengileg og einfaldur grunnbúnaður nýtist við framkvæmd. Hvert land getur svo þróað verkefnið áfram í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru og á Íslandi hefur YAP verið aðlagað að því starfi sem fyrir er í leikskólum. Kennsluefni er skipt í 8 meginþætti sem byggja upp grunnhreyfifærni en efnið var sett upp í samstarfi við háskólann í Boston. Miðað er við 8 vikna prógramm þar sem hver dagur er skipulagður út frá markmiði hvers þáttar. Mælingar eru gerðar í upphafi æfinga og að loknu tímabili. Þó YAP hafi í fyrstu verið sérstaklega sett upp til að virkja börn með sérþarfir þá hefur það komið í ljós hér á Íslandi, að öll börn njóta góðs af. Oft kemur í ljós við mælingar að þörf er á að fylgja eftir ákveðnum þáttum hjá börnum sem á engan hátt skera sig úr.
Ástæða þess að Special Olympics á Íslandi innleiddi YAP verkefnið er að rannsóknir hafa sýnt gífurlega áhugaverðar niðurstöður, þegar horft er á snemmtæka íhlutun í hreyfifærni. Samstarf við heilsuleikskólann Skógarás Ásbrú hefur staðfest jákvæðar niðurstöður. Þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir á þessu sviði þá virðist markviss hreyfiþjálfun ekki vera í boði nema í fáum leikskólum og vísað er í frjálsan leik og útiveru sem hreyfiþjálfun. Af einhverjum ástæðum hefur hreyfiþjálfun ekki fengið sinn sess í umræðunni þegar kemur að fagmennsku. Það er gerð krafa um fagmennsku þegar kemur að málörvun. Þá er ekki nóg að hafa frjálst tal. Þrátt fyrir að fagfólk eigi að þekkja vel rannsóknir um gildi hreyfiþroska og hreyfifærni fyrir annað nám, – þá er litil sem engin umræða um þessi mál. Þar sem fólk beitir sér fyrir góðri aðstöðu og fagmennsku þegar kemur að hreyfiþjalfun og hreyfifærni, þar hafa breytingar átt sér stað. Með tilkomu nýrra leikskóla er mikilvægt að horft sé til aðstæðna út frá gildi hreyfiþjálfunar og stutt sé vel við þá leikskólastjóra sem eru að reyna að efla þennan þátt. Á sama tíma þarf að koma í veg fyrir að aðstaða til hreyfiþjálfunar sé tekin undir annað starf t.d. í eldra húsnæði. Sérstaklega fyrir börn með skertan hreyfiþroska, þá er gríðarlega mikilvægt að tekið sé alvarlega hve snemmtæk íhlutun er mikilvæg á sviði hreyfifærni. Hvert ár skiptir máli. YAP verkefnið skilar sér líka í því að styrkja börnin og undirbúa þau fyrir fyrsta íþróttatímann í grunnskóla og þátttöku í almennu íþróttastarfi.
Með samstarfi leikskóla á Suðurlandi væri hægt að skapa öllum börnum sömu tækifæri til markvissrar hreyfiþjálfunar. Það var mjög áhugasamur hópur leikskólastjóra og starfsfólks sem mætti á kynninguna á Selfossi. Þó aðstaða sé mismunandi í leikskólum þá getur YAP nýst á jafnt litlu sem stóru svæði. Allir geta nýtt verkfærakistu YAP og undraverður árangur næst ef faglega er staðið að málum. Takk Jötunheimar fyrir að veita aðstöðu til þessa viðburðar.
Anna Karólína Vilhjálmsdóttir
Frkvstj. Special Olympics á Íslandi/Þróunarsviðs ÍF