-11.4 C
Selfoss

Höfuðdagur

Vinsælast

Ingólfur Sverrisson.

Stokkseyri fyrir hundrað árum er sögusvið nýrrar bókar eftir Ingólf Sverrisson.  Móðir hans fæddist þar árið 1923 en missti báða foreldra sína sex ára gömul og orðin niðursetningur sem hreppurinn kom fyrir hjá blá ókunnu fólki á öðrum bæ. Í bókinni rekur höfundur sögu hennar fyrstu sextán árin á Stokkseyri, hvernig hún komst af við erfiðar aðstæður og hvernig gott fólk og aukinn þroski fleytti henni áfram til bjargálna og farsæls lífs.

Að sögn höfundar vildi hann með bókinni móta heildstæða mynd af þessum afdrifaríku árum móður sinnar í þorpinu. Kynnast aðstæðum á Stokkseyri fyrir eitt hundrað árum, mannlífinu þar og náttúrunni, baráttu og viðmóti fólksins við syðsta haf sem „getur oft verið gjöfult en krafðist á móti mikilla mannfórna þegar veður fóru hamförum,“ eins og fram kemur í aðfaraorðum.

Þar segir ennfremur: „Hitt var þó sýnu mikilvægara, að átta sig á því hvaða lærdóm við nútímafólkið getum dregið af aðstæðum sem skópu börnum örlög fyrir eitt hundrað árum. Höfum við gengið götuna til góðs frá þeim tíma?“

Höfundur bókarinnar aflaði sér fjölbreyttra upplýsinga um lífið á Stokkseyri fyrir eitt hundrað árum. Tengdi þær  síðan staðreyndum úr lífi móðurinnar á þessum tíma og fyllti upp í með eigin frásögnum úr daglegu lífi hennar og þeirra sem henni stóðu næst.  Sögusviðið er einkum kringum bæinn Grímsfjós þar sem hún var í fóstri, Vegamót, bæinn við hliðina og svo lífið í plássinu allt frá Beinateigshverfi og austur til Sönduhverfis. Úr þessum efniviði var bókin Höfuðdagur samin en móðir höfundar fæddist þann dag fyrir röskum 100 árum í þurrabúðinni Nýjabæ norðan Löngudælar.

Útgefandi bókarinnar segir á baksíðu: „Bókin er óður til móður sem strax á æskuárum gekk í gegnum ótrúlega þrekraun og stóð að lokum uppi glæsileg og virt kona í fjarlægum landshluta og eignaðist átta börn.“

Nýjar fréttir