Umferðarslys varð í morgun á Suðurlandsvegi á móts við afleggjarann að Sólheimajökli og var veginum lokað tímabundið í báðar áttir. Nokkru síðar var opnað fyrir umferð um veginn en henni er stýrt af lögreglu og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og taka tillit til aðstæðna.
Tilkynning barst til Neyðarlínu í morgun um árekstur á milli tveggja bifreiða, fólksbifreiðar og olíuflutningabifreiðar og mun olíuflutningabifreiðin hafa oltið á hliðina. Einhver slys urðu á fólki og þá lak olía úr olíuflutningabifreiðinni.
Viðbragðsaðilar eru komnir á vettvang og hafa hafið vinnu á vettvangi.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu og óvíst sé hversu lengi takmarkanir verði á umferð.