Ný og stórglæsileg 5000 fermetra verslun Húsasmiðjunnar, Blómavals og Ískraft opnaði óformlega í dag, mánudaginn 13. nóvember, að Larsenstræti 6 á Selfossi.
„Þegar við hófumst handa við að hanna nýja verslun fyrir Húsasmiðjuna, Blómaval og Ískraft, allar undir sama þaki, vorum við með nokkuð skýra mynd af því hvernig við vildum hafa búðina og þjónustuna. Til að skerpa enn frekar á upplifun viðskiptavina fengum við til okkar frábæra ráðgjafa frá Bretlandi, MWorldwide til að vinna verkefnið áfram en sú hönnun fékk í framhaldi af opnun verslunar á Akureyri, silfurverðlaun í DBA hönnunarverðlaununum bresku (Design Effectiveness Award). Við leggjum áherslu á þarfir viðskiptavina, aukna upplýsingagjöf, stafræna tækni og aukin svæði með sýnishornum. Verslun okkar á Selfossi er í sama anda og verslunin á Akureyri sem við opnuðum fyrir rúmu ári síðan. Við erum mjög spennt að opna þessa glæsilegu verslun hér á Selfossi í vikunni, sem stenst fullkomlega samanburð við þá norðan heiða,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar í samtali við Dagskrána.
120 manns lögðust á eitt
Meðal fjölmargra nýjunga í versluninni verða sjálfsafgreiðslukassar, rafrænar hillumerkingar, hleðslustöðvar og gæsilegt sölu- og ráðgjafasvæði fyrir söluráðgjafa. Flutningar úr gömlu versluninni hafa gengið vel, en smátt og smátt hefur starfsfólk flutt vörur yfir í nýju verslunina undanfarnar vikur og um helgina voru um 120 manns, ásamt fjölda iðnaðarmanna, sem flykktust saman og fluttu megnið af því sem eftir var í gömlu versluninni yfir í þá nýju.
Guðrún Tinna segir Húsasmiðjuandann einkennast af samheldni og að allir hafi lagst á eitt. „Um 25 manns, bæði frá Selfossi og Vöruhúsi Húsasmiðjunnar í Reykjavík fluttu alla þungavöru. Vörustjórarnir okkar hafa hjálpað deildarstjórunum í versluninni á Selfossi að skipuleggja uppröðun vara, raða sýnishornum og tilfallandi. Auk nánast allra starfsmanna og helgarstarfsmanna úr versluninni á Selfossi, komu handboltastrákar og stelpur úr meistaraflokki kvenna á Selfossi, Starfsmenn Húsasmiðjunnar og Blómavals frá Reykjavík, verslunum okkar í Skútuvogi, fagmannaverslun, Grafarholti, Vestmannaeyjum og Akranesi, ásamt öflugum hópi frá Akureyri og hjálpuðu til við flutninga. Þá var stór hópur, mestmegnis kvenna, frá skrifstofu Húsasmiðjunnar í Reykjavík sem eyddi allri helginni í að raða vörum upp í hillur og gera verslunina tilbúna fyrir formlega opnun næsta föstudag. Hinn einkennandi Húsasmiðjuandi hefur sýnt sig vel og það var frábært að sjá þann fjölda fólks sem tilbúið var að stökkva úr sínum daglegu störfum og taka þátt í þessu stóra og verðuga verkefni með okkur.“
Breidd í vöruvali og þjónustu
„Húsasmiðjan og Blómaval er með ólíkan hóp viðskiptavina, frá einstaklingum sem kaupa t.d. blóm, ísskáp, fá litaráðgjöf eða kaupa timbur fyrir pallinn sinn, yfir í stærstu byggingaverktaka landsins, þar sem þjónusta og tilboðsgerð í t.d. stál, plötur og timbur skipar stóran sess. Þetta krefst mikillar breiddar í vöruvali og þjónustu, þótt í grunninn sé ávallt sama leiðarljósið þ.e. að eiga í góðu sambandi við viðskiptavininn og þjónusta vel með réttum vörum á réttum tíma,“ bætir Guðrún Tinna við.
„Á föstudag verður mikil viðhöfn þegar búðin verður opnuð með glæsibrag og á laugardag verður fjölskylduhátíð með Latabæ, blöðrum, veitingum og gleði. Að sjálfsögðu verður fjöldi glæsilegra opnunartilboða út nóvember samhliða opnuninni. Ég er ekki í neinum vafa um að viðskiptavinir okkar verði jafn ánægðir með nýju verslunina og við. Aukið vöruframboð og bætt framsetning voru stór áhersluatriði við uppsetningu verslunarinnar því það skiptir okkur höfuðmáli að upplifun allra okkar viðskiptavina sé hin besta, án þeirra værum við ekki hér! “ Segir Guðrún Tinna að lokum.