Það verður þjófstartað í Bókakaffinu með fyrstu jólabókakynningu okkar á þessu hausti fimmtudagskvöldið 9. nóvember kl. 20. Þjófstart vegna þess að stórskáldin sem stíga á stokk munu einkum og aðallega ræða um þjófa og brostfelduga hegðun fyrri daga og alda.
En líka þjófstart því að jólabókakynningar eru alls ekki hafnar, jólin enn langt undan og hin reglulegu jólabókakvöld byrja ekki í Bókakaffinu fyrr en næstsíðasta fimmtudag nóvember. En þetta kvöld er sérlegt og einstakt og bragðgott eins og þjófstolin karamella eða launsviðnar lappir af lambi úr annarri sveit.
Ísfirðingurinn Eiríkur Örn Norðdahl ríður á vaðið með sögulega skáldsögu – Náttúrulögmálin – sem gerist á Ísafirði á millistríðsárunum og við sögu koma broslegir guðsmenn og karnivalískt bæjarlíf.
Þeir félagar Einar Már Guðmundsson og Ófeigur Sigurðsson koma hér saman í bróðerni en keppast þó um að segja frá því sama en hvor með sínu nefi – söguefnið er hið ólíkindalega Kambsrán rétt utan við Selfoss árið 1827.
Bók Einars Más sem er framhald af Skáldlegri afbrotafræði (2021) og heitir einfaldlega Því dæmist rétt vera – safarík saga um glæp og refsingu. Sunnlendingurinn Ófeigur Sigurðsson skrifar undir söguheitinu Far heimur, far sæll.