-0.7 C
Selfoss

Ég var umkringd lestri alla mína barnæsku

Vinsælast

segir lestrarhesturinn Hallgerður Höskuldsdóttir

Hallgerður Höskuldsdóttir er 19 ára gömul og alin upp á sveitabænum Stóra-Ármóti í Flóahreppi þar sem hún býr enn ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún er nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hún vinnur að því að klára nám bæði á sjúkraliðabraut og náttúrufræðilínu. Ásamt skólanum æfir hún sund af fullum krafti á Selfossi og hefur almennt í nógu að stússast bæði heima við og að heiman.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Akkúrat núna er ég að lesa bókin Englar og Djöflar eftir bandaríska rithöfundinn Dan Brown sem er hluti af fimm bóka seríu. Ég var á leiðinni í tveggja vikna sumarfrí til Frakklands og vantaði einhverja almennilega bók til að taka með mér og rak þá augun í bókina Da Vinci lykillinn sem er hluti af þessari sömu seríu. Sú bók náði mér algjörlega þannig ég ákvað að prófa fleiri bækur úr seríunni og varð Englar og Djöflar fyrir valinu. Hingað til þá hefur hún ekki valdið vonbrigðum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Alveg frá því ég man eftir mér hef ég verið mikið fyrir ævintýra- og fantasíu bækur en mér fannst fátt skemmtilegra en að lesa um eitthvað ónáttúrulegt sem myndi aldrei gerast í raunheiminum, maður hálf sogaðist inn í nýjan heim í gegnum lesturinn sem mér fannst æðislegt. Þegar ég datt svo inn á unglingsárin þá fóru spennusögurnar að skipa stærri sess í mínum lestri og eru þær eiginlega orðnar uppáhalds bækurnar mínar til að lesa núna. Ég elska bækur þar sem maður getur ekki beðið eftir að fletta á næstu blaðsíðu því sagan er svo spennandi.

Fékkstu lestraruppeldi í æsku?

Ég var alin upp við mikinn lestur heima en flestir í kringum mig lesa mikið eins og til dæmis mamma mín og elsta systir mín. Þegar ég var yngri, þá voru mamma og pabbi mjög dugleg að lesa fyrir okkur systkinin og þegar ég var send í pössun til ömmu og afa þá var lesið fyrir mann þar þannig. Ég var umkringd miklum lestri alla mína barnæsku. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa alist upp við svona mikinn lestur og er það klárlega ein ástæðan fyrir mínum áhuga á bókum. Ég var mjög snemma orðin vel læs og farin að lesa ýmsar barnabækur en þar má helst segja frá Astrid Lindgren bókunum sem voru í miklu uppáhaldi og svo auðvitað ýmis gullkorn úr íslenskum barnabókmenntum eins og Fíasól og bækurnar eftir Gunnar Helgason og auðvitað margt fleira. Uppáhalds bækurnar mínar eru án nokkurs efa Harry Potter bækurnar. Þær hafa verið í algjöru uppáhaldi alveg frá því mamma las fyrstu bókina fyrir mig þegar ég var svona 7-8 ára gömul. Enn þann dag í dag dreg ég þær reglulega fram, svona þegar ég hef ekkert annað að lesa, og hef ég alltaf jafn gaman af þeim.

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.

Lestrarvenjur mínar eru ekki af flóknari gerðinni. Ég reyni að lesa nokkra kafla á kvöldin áður en ég fer að sofa því þá gefst loksins tími til þess og það hjálpar við að róa hugann. Það er nokkuð mikið að gera hjá mér svona dags daglega í sambandi við skólann, æfingar og félagslífið þannig ég hef ekki alltaf tíma til að vera lesa mikið þessa dagana. Það gerir það hins vegar að verkum að það er mun skemmtilegra að setjast niður með bók þegar maður loksins hefur tíma til þess.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Það er eiginlega engin höfundur sem hefur verið í einhverju uppáhaldi hjá mér. Ef ég ætti að nefna einhvern þá kemur J.K.Rowling auðvitað upp í hugann út af Harry Potter bókunum. Svo hef ég lesið mikið af bókum eftir Rick Riordan en hann skrifar mjög mikið í kringum ýmsa goðafræði sem ég hef gaman að. Svo eins og ég nefndi áðan þá var Astrid Lindgren í miklu uppáhaldi þegar ég var barn og eru bækurnar hennar algjör meistaraverk sem allir krakkar (og fullorðnir) ættu að gefa sér tíma í að lesa.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Þær hafa held ég nokkrar rænt mig svefni í gegnum tíðina. Að öllum líkindum þá eru Harry Potter bækurnar þar á lista. Þegar maður var dottinn inn í þær þá var erfitt að láta þær frá sér sem varð til þess að ég var oft langt fram á kvöld að lesa. Jólabækurnar var ég einnig oft að lesa fram eftir en það er algjör klassík að leggjast upp í rúm á jólanótt með eina góða bók í hendi.

En að lokum Hallgerður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ef ég myndi skrifa bók þá held ég að hún yrði einhverskonar spennusaga um eitthvað lögreglumál á Íslandi eins og er svo vinsælt hjá íslenskum rithöfundum í dag. Ég verð samt að viðurkenna að mér myndi aldrei detta það í hug að skrifa bók sjálf og finnst mér mun betri hugmynd að láta annað fólk sjá um þá vinnu.

Nýjar fréttir