-4.1 C
Selfoss

Best að vera utanbæjartútta

Halldóra Baldvinsdóttir, hársnyrtir og förðunarfræðingur sem býr í Hveragerði ásamt unnusta sínum og börnum, keypti á dögunum reksturinn á hársnyrtistofunni Stúdíó S á Selfossi og breytti um leið nafni stofunnar í Ópus Studio.

Halldóra er fædd og uppalin í Reykjavík en hefur búið í Hveragerði síðustu 5 ár. „Mér finnst það æðislegt. Ég hélt að ég myndi aldrei fíla það raunverulega að vera „utanbæjartútta“ en í dag myndi ég hvergi annarsstaðar vilja vera en hér eða í nærsveitum,“ segir Halldóra í samtali við Dagskrána.

„Ég byrjaði í hárgreiðslunámi 18 ára gömul en kláraði námið ekki á þeim tíma. Eftir barneignir ákvað ég svo að stökkva af stað og drífa mig loks í að klára það sem ég byrjaði á og útskrifaðist sumarið 2021 úr Hárakademíunni. Við maðurinn minn keyptum stofuna í Hveragerði fyrir einu og hálfu ári síðan af tengdamömmu minni sem hafði rekið hárgreiðslustofuna Ópus í þrjá áratugi. Þá tók ég við rekstrinum í júní í fyrra og opnaði í raun glænýja stofu undir nafninu Ópus Studio. Ég vildi breyta nafninu örlítið því nú var stofan ekki einungis hárgreiðslustofa heldur líka förðunarstúdíó. Við kaupum svo reksturinn á Selfossi núna í október og breyttum heilmiklu strax til að byrja með, þ.e. nýtt nafn og útlit stofunnar en við eigum svo eftir að taka enn meira í gegn og stefnum á að gera það fljótlega eftir jól,“ bætir Halldóra við.

Halldóra ásamt þeim Helgu Gunnarsdóttur, Lindu Rut Ragnarsdóttur og Birnu Rán Magnúsdóttur sem allar starfa á Ópus studio á Selfossi. Ljósmynd: DFS.is/Helga Guðrún.

Solla Pálma enn á sínum stað

Halldóra segir engar breytingar standa til á Ópus Studio á Selfossi aðrar en útlitslegar. „Allar skvísurnar sem hafa verið verða enn á sínum stað og Solla Pálma líka. Kaupin voru kannski svolítið óvænt en eru skemtileg viðbót við það sem við vorum með og við erum virkilega ánægð með ákvörðunina. Solla er líka mjög fegin að minnka álagið á sig og geta verið áhyggjulaus yfir öllu því sem viðkemur rekstrinum og er hún nú í stólaleigu eins og allar hinar, en á Selfossi eru 7 skvísur að klippa og ég þá sú áttunda svona af og til, tveir naglafræðingar og einn snyrtifræðingur og í Hveragerði erum við tvær að klippa eins og er en þar er ég með 4 stóla og sárvantar mannskap vegna mikillar eftirspurnar.“

Aðspurð um nafnið Ópus segir Halldóra að tengdamóðir hennar og systir hafi ákveðið það þegar þær voru að hefja sinn rekstur. „Þær höfðu séð gamlan hárgreiðslustól sem stóð OPUS aftan á. Þær komust svo að því að Opus þýddi verk og ákváðu að íslenska nafnið og úr varð hársnyrtistofan Ópus.“

Fleiri myndbönd