-7.2 C
Selfoss

Bílar í lífi þjóðar

Vinsælast

Ljósmyndarar fortíðarinnar voru duglegir að festa tímann á filmu, framtíðarfólki til fróðleiks og skemmtunar. Eitt af því sem fyrir augu þeirra bar var bíllinn, sem lengi hefur verið samofinn íslensku þjóðarsálinni. Íbúar í strjábyggðu landi án lestarsamgangna urðu að tileinka sér tækniundur 20. aldarinnar og fátt annað verkfæri hefur átt jafn góða samleið með Íslendingum en bíllinn sem tryggði frelsi til ferðalaga um fagurt landið. Og þegar hann birtist með fjórhjóladrifi opnuðust víðerni hálendisins. En saga þessarar samgöngubyltingar var á köflum grýtt og margir hildir háðir við slæma vegi og óblíð náttúruöfl. Flestir eiga þó minningar frá skemmtilegum ökuferðum í margvíslegum farartækjum liðins tíma og eitt er víst að fátt hefur bundið betur saman land og þjóð en bíllinn.

Slabb á Austurvegi. Það var desemberslabb á Selfossi árið 1959 þegar tveir Chevrolet-bílar áttu leið um Austurveginn við stórhýsi Kaupfélags Árnesinga, sá fremri frá 1947 en sá aftari frá 1953, báðir farnir að láta á sjá eftir vetrarslarkið. Öllu nýlegri Volkswagen-bjöllu hefur verið lagt við inngang kaupfélagsins.

Forlagið hefur gefið út bókina Bílar í lífi þjóðar eftir Örn Sigurðsson, en hún skartar rúmlega 900 ljósmyndum í fjórum stórum köflum sem tileinkaðir eru meginþáttum bílamenningarinnar. Bílar hafa löngum verið eitt helsta einkenni þéttbýlis, á sama tíma og þeir greiða leiðir ferðafólks um sveitir og öræfi. Í upphafi var bíllinn einkum atvinnutæki, ýmist notaður til fólks- eða vöruflutninga og sem slíkur á hann sér merka sögu. En það er svo með bílinn eins og mörg önnur mannanna verk, hann hefur einnig sínar dökku hliðar, líkt og umferðaróhöppin bera vitni um, að ógleymdu öllu baslinu sem bílamenn voru duglegir að koma sér í. Öllu þessu er komið til skila í þessari vönduðu bók sem er 320 blaðsíður að lengd í stóru broti.

Bílar í lífi þjóðar.

Margar myndir í bókinni er frá Suðurlandi og Selfossi, en höfundur átti gott samstarf við Héraðsskjalasafn Árnesinga við öflun ljósmynda, en það frábæra safnið varðveitir einstakan ljósmyndafjársjóð. Auk þess átti höfundur í fórum sínum myndir úr safni Jóhanns Þórs Sigurbergssonar, ljósmyndara frá Selfossi, en í lok síðustu aldar voru þeir samstarfsmenn hjá Landmælingum Íslands.

Nýjar fréttir