-6.6 C
Selfoss

Blendnar tilfinningar við Sænska húsið

Vinsælast

„Ég á bæði góðar og sárar minningar sem tengjast þessu húsi,‟ sagði Strandakonan Jóna Ingibjörg Bjarnadóttir þar sem hún stillti sér upp til myndatöku við æskuheimilið, Sænska húsið við Austurveg 33 á Selfossi. Jóna Ingibjörg er fædd í húsinu 13. nóvember 1956, sú sjöunda í röð 11 barna Bjarna Kristins Bjarnasonar og Ingibjargar Júlíönu Guðlaugsdóttur.

Heimili þeirra hjóna leystist upp með dramatískum hætti í kjölfar veikinda heimilisföður og óreglu móðurinnar. Jóna Ingibjörg hefur nú skrásett þessa fjölskyldusögu sem kom út nú síðsumars undir heitinu Hlutskipti, saga þriggja kynslóða. Meðhöfundur að bókinni var Jón heitinn Hjartarson fyrrverandi fræðslustjóri á Selfossi sem lést þegar verkið var á lokastigi.

Frá upplestrinum í Bókakaffinu á Selfossi 14. október síðastliðinn.

Jóna Ingibjörg segir að tilfinningarnar gagnvart æskustöðvunum séu blendnar. Þó að barnsleikirnir hér í Njólalandi milli Sænska hússins og Austurvegar 29 hafi verið fallegir þá hafi margt annað litað þessa mynd og ekki síst endalok fjölskyldulífsins vorið 1969. Um það sem og forsögu atburðanna megi lesa í bók hennar sem gerist ekki öll á Selfossi heldur einnig á ættarslóðum í Flóa og á Tröllaskaga. Í síðari hluta bókarinnar berst sagan að Gjögri á Ströndum þar sem móðir Jónu Ingibjargar settist í aðstæðum sem voru því líkastar að farið væri áratugi aftur í tímann.

Frá upplestrinum í Bókakaffinu á Selfossi 14. október síðastliðinn. Þess má geta að það er útgáfa Bókakaffisins, Sæmundur sem gefur bók Jónu Ingibjargar út.

Jóna Ingibjörg var 12 ára þegar barnsveröld hennar hrundi og næstu misseri barðist hún fyrir að fá að komast til móður sinnar. Frásögn hennar af norðurferðinni eru ævintýralegar og líkt og sagan öll harðneskjuleg lýsing á fátækt og erfiðleikum sem þó er svo stutt undan í tíma.

Þær Jóna Ingibjörg og Áslaug Ólafsdóttir kynntu bókina í Bókakaffinu á Selfossi fyrir nokkru og greinilegt að áhugi á þessari sögu er verulegur. Húsfyllir var og líflegar umræður. Fjölmargir af eldri Selfyssingum mættu sem og fjölskyldumeðlimir úr Sænska húsinu.

Nýjar fréttir