-8.3 C
Selfoss

Þórir Geir og Karitas Harpa keppa í The Voice í kvöld

Vinsælast

Þórir Geir Guðmundsson er annar tveggja Sunnlendinga sem er kominn áfram í söngkeppninni sívinsælu, The Voice, sem sýnd er í Sjónvarpi Símans en beinu útsendingar þáttanna hefjast í kvöld. Hinn keppandinn er Karitas Harpa Davíðsdóttir frá Selfossi.

„Ég er bara ósköp venjulegur 22 ára strákur utan að landi sem finnst skemmtilegt að syngja og hafa gaman að lífinu,“ segir Þórir. „Ég er fæddur á Þórshöfn á Langanesi en ólst upp á Stokkseyri og bý nú á Selfossi.“

Aðspurður um það hvort hann sé búinn að syngja lengi segir hann svo ekki vera. „Ég hef verið tiltölulega stutt að syngja opinberlega en hef alltaf verið mikill gaulari og mikið fyrir að bregða mér í ýmsa karaktera og herma eftir ýmsum hljóðum og svona. Ég söng í fyrsta skipti opinberlega á videói sem ég deildi á Facebook, en það var söngatriði sem ég og vinkona mín vorum að æfa fyrir árshátíð. Fólk varð frekar hissa því fáir vissu að ég gæti sungið. Mikil og góð viðbrögð fólks komu mér sjálfum á óvart. Í kjölfarið fór ég svo að gera meira af því að syngja og ákvað að taka þátt í söngkeppni NFSu og sigraði hana. Þá fór boltinn svona aðeins að rúlla. Ég er í ballhljómsveit sem hefur aðeins verið að koma fram, hef verið að syngja í brúðkaupum og ýmis konar uppákomum ásamt því sem ég fór með hlutverk prinsins í uppsetningu leikfélags Hveragerðis á leikritinu Mjallhvít og dvergarnir sjö.”

Þórir Geir sló í gegn í fyrstu umferð þáttanna eða „blindprufunum” þegar hann heillaði alla dómaranum upp úr skónum með Quenn laginu „Somebody to love”. Þórir Geir valdi Sölku Sól sem þjálfara sinn. Í næstu umferð atti hann síðan kappi við annan liðsmann í „einvígi” þeirra á milli og hafði betur. Þriðja umferð keppninni var síðan svokölluð „ofureinvígi” þar sem þrír keppendur úr sama liði kepptu sín á milli og aðeins einn komst áfram. Í þeirri umferð var Þóri stolið af Helga Björnssyni sem er nú þjálfari Þóris fyrir fyrstu umferð beinu útsendinganna.

„Ég er ótrúlega spenntur fyrir föstudeginum. Æfingar hafa gengið vel og þó það sé ákveðið stress sem fylgir því að vera í beinni útsendingu þar sem allt getur gerst þá gerir það leikinn bara enn skemmtilegri. Ég hvet bara alla til að fylgjast með á föstudaginn klukkan 20:00 og taka upp tólið og kjósa rétt”, segir Þórir brosandi.

Nýjar fréttir