-6.1 C
Selfoss

Fáni UMFÍ blaktir nú á Egilsstöðum

Vinsælast

Davíð Þór Sigurðsson, formaður íþróttafélagsins Hattar á Egilsstöðum, dró fána UMFÍ að húni í dag á einni af fánaborgunum sem búið er að koma fyrir á Egilsstöðum. Markar það upphaf Unglingalandsmóts UMFÍ sem fer fram í bænum um verslunarmannahelgina. Búist er við um og yfir 1.000 keppendum á aldrinum 11–18 ára og foreldrum og forráðamönnum þeirra. Gert er ráð fyrir allt að 10.000 gestum á Egilsstöðum frá öllu landinu á meðan mótið fer fram dagana 4.–6. ágúst.

Sunnlenskar fjölskyldur hafa í gegnum árin verið dulegar að sækja Unglingalandsmótin og er búist við stórum hópi frá HSK og USVS.

Nokkur röskun verður á daglegu lífi bæjarbúa á Egilstöðum meðan á Unglingalandsmóti UMFÍ stendur um verslunarmannahelgina. Nokkrum götum verður lokað í bænum og nágrenni hans og munu strætisvagnar aka fólki til að draga úr bílaumferð í bænum.

Veðurstofa Íslands spáir úrvals keppnisveðri á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina, þurrki og logni.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir mótið á Egilsstöðum, búið er að gera frábæra stíga fyrir keppni í fjallahjólreiðum og verið að marka tjaldstæðin fyrir keppendur og fjölskyldur þeirra sem sumar hverjar koma langt að. Mikið er í boði fyrir alla fjölskylduna á Unglingalandsmóti UMFÍ svo sem námskeið í leikjum, fimleikum, frisbí og margt fleira. Á kvöldin verða tónleikar með flottasta tónlistarfólki þjóðarinnar.

Ákveðið var í dag að halda skráningum áfram opnum fram á þriðjudagskvöld, það er fram að lokum dagsins 1. ágúst. Skráning fer fram á www.umfi.is.

Þess má að lokum geta að næsta Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður 2018 fer fram í Þorlákshöfn. Undirbúningur er þegar hafinn.

Nýjar fréttir