-5.5 C
Selfoss

Bungubrekka og Zelsíuz hljóta tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna

Bungubrekka, frístundamiðstöð Hveragerðisbæjar og samstarf velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz hafa hlotið tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2023. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum; Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennari, framúrskarandi þróunarverkefni og framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Frístundamiðstöðin Bungubrekka er tilnefnd í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur og samstarf velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz er tilnefnt í flokki framúrskarandi þróunarverkefna.

Bungubrekka hefur yfirumsjón með frístundastarfi í Hveragerði. Þar má nefna frístundaheimilið Brekkubæ, sem er þjónusta fyrir börn í 1.-4. bekk grunnskólans, félagsmiðstöðina Skjálftaskjól, sem er þjónusta fyrir börn og unglinga í 5.-10. bekk, Rafíþróttaklúbbinn C3LL4R sem býður upp á skipulagt rafíþróttastarf og auk þess er skipulagt frístundastarf yfir sumartímann fyrir fjölbreytta aldurshópa; sumarnámskeið, viðburði og vinnuskóla.

Áhersla á innra mat og framúrskarandi fagstarf

Sérstaða Bungubrekku er áhersla frístundamiðstöðvarinnar á innra mat og starfshætti sem miða að virkri innleiðingu á gæðaviðmiðum stjórnvalda um framúrskarandi fagstarf frístundaheimila. Í sameiginlegri vinnu sveitarfélagsins um innra mat, sem unnin var þvert á leik-, grunnskóla og frístundastarf sýndi Bungubrekka frumkvæði til að bæta starfið út frá skýrum markmiðum og ferlum. Bungubrekka miðlar markvisst umbótastarfi sínu til foreldra og samfélagsins í Hveragerði, nýtir til þess viðhorfskannanir og önnur gögn sem varpa ljósi á fagstarfið og þátttöku barna og unglinga. Bungubrekka hefur verið leiðandi á landsvísu í eflingu gæðastarfs og fagmennsku og miðlað til frístundavettvangsins af örlæti sínum starfsháttum.

Frístundamiðstöðin býður börnum og ungmennum upp á afar vandaða dagskrá sem skipulögð er í lýðræðislegu ferli, þar sem tillit er tekið til fjölbreytileika og áhugasviðs ólíkra hópa barna og ungmenna. Þessi listi yfir viðburði sem börnum og ungmennum hefur staðið til boða undanfarin misseri gefur hugmynd um fjölbreytnina: Kósý-kvöld, kahoot-kvöld, pylsupartý, hoppukastali, útivera, götuskreytingar, ævintýrafrístund, ratleikir, rafíþróttaklúbbur, sundlaugarpartí, grillveislur, utanvegahjólreiðar, hópíþróttir, jaðaríþróttir, spilakvöld, leikir, spjall, trúnó, skapandi starf, rökræður og smiðjur.

Forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar er Ingimar Guðmundsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur og forstöðumaður frístundamála Hveragerðisbæjar.

Snemmtæk íhlutun

Árið 2016 hófst samstarfsverkefni velferðarþjónustunnar í Árborg og félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz. Verkefnið byggir á snemmtækri íhlutun sem miðar að því að börn, sem þurfa félagslegan stuðning, fái aðstoð sem fyrst til að koma í veg fyrir að vandi þeirra aukist.

Verkefnið er stuðningsúrræði sem bæði hefur verið unnið á einstaklingsgrunni með tilteknu barni en einnig hefur það tekið á sig mynd sértæks hópastarfs. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun barna og unglinga, styrkja þá og gera að virkum þátttakendum í starfi félagsmiðstöðvarinnar. Persónulegur ráðgjafi veitir barni ráðgjöf og liðveislu  sem stuðlar að félagslegri, siðferðilegri og tilfinningalegri eflningu. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að starfsfólk nálgist unglingana á jafningjagrundvelli.

Eitt af markmiðum verkefnisins er að fá krakkana til að taka þátt og mæta reglulega í félagsmiðstöðina. Frá því að verkefnið hófst árið 2016 hafa ríflega 70% barna eða unglinga sem sótt hafa úrræðið skilað sér inn í frekara starf félagsmiðstöðvarinnar.

Niðurstöður verkefnisins gefa til kynna fjölþættan ávinning og undirstrika mikilvægi félagsmiðstöðvarstarfs fyrir börn sem standa höllum fæti. Verkefnið er dæmi um farsælt samstarfsverkefni í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu fyrir farsæld barna og er framúrskarandi vitnisburður um þann ávinning sem hlýst af samstarfi ólíkra stofnana, á borð við félagsmiðstöð annars vegar og barnavernd innan velferðarþjónustu hins vegar.

Í BA ritgerð Arnars Helga Magnússonar um verkefnið kemur fram að ávinningur fagfólksins sem tók þátt í verkefninu sé afar mikill, sem og árangur af verkefninu fyrir virkni unglinganna sem nutu góðs af samstarfinu.

Verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar er Guðmunda Bergsdóttir.

Fleiri myndbönd