Heilbrigðisstofnun Suðurlands sótti um styrk til gæða- og nýsköpunarverkefna í heilbrigðisþjónustu og hlaut 4 milljóna styrk fyrir verkefnið „Notkun erkitýpu-sjúklinga“ til greiningar á stöðu bráðaþjónustu á Suðurlandi, þetta kom fram í tilkynningu frá HSU á þriðjudag.
Markmið verkefnisins er að greina styrkleika og áskoranir við veitingu bráðaþjónustu á þjónustusvæði HSU, allt frá Hellisheiði í vestri til Hafnar í austri. Sérstaklega verður litið til landfræðilegra áskoranna á stöðum eins og Höfn og Vestmannaeyjar ásamt dreifbýlis með mikilli ferðamannaþjónustu líkt og Öræfasveit. Notkun erkitýpa við greiningu á ferlum í þjónustu er vel þekkt og talin ein öflugasta leiðin til að skilja mismun í þjónustu milli hópa og staða. Slík greining hefur ekki farið fram áður á Íslandi í bráðaþjónustu og gæfi greinargóða mynd á þær áframhaldandi áskoranir bráðaþjónustu ásamt því að verkefnið nýtist sem fyrirmynd fyrir landið allt.
Samdar verða lýsingar á 10 erkitýpu sjúklingum sem lýsa lykilþáttum í þjónustuþörf einstaklinga sem leita í bráðaþjónustu HSU. Þess verður gætt að líta til, meðal annarra þátta, barna og fullorðinna, líkamlegra og geðrænna kvilla ásamt veikindum og slysum. Farið verður yfir hvernig hver og einn sjúklingur færi i gegnum þjónustuna á mismunandi tímum sólarhrings fyrir allar starfsstöðvar.
Verkefnið samræmist heilbrigðisstefnu fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030.
En með því að greina ferla verkefnisins i umdæmi HSU getum við kortlagt með góðum hætti hvort þörf sé á breytingum á skipulagi starfseminnar eða hvort og hvernig við getum styrkt starfsstöðvarnar við sínar áskoranir við veitingu bráðaþjónustu.
Verkefnið horfir til kafla 4 í heilbrigðisstefnunni þar sem fjallað er um að landsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum og þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega samrýmist verkefnið áherslu ársins að styðja við eftirfylgni með tillögum viðbragðsteymis ráðuneytisins um umbætur í bráðaþjónustu á landsvísu
Ábyrgðarmaður verkefnisins er Sigurður Böðvarsson, framkvæmdastjóri lækninga.