Átján nemendur 8.-10. bekkjar í Hvolsskóla gerðu sér lítið fyrir og gengu yfir Fimmvörðuháls á fimmtudaginn í síðustu viku. Í ellefu ár hefur Hvolsskóli gengið á fjöll í héraði í verkefninu 10 tinda ganga. Nú í haust hófst annar hringur í þessu skemmtilega verkefni, þar sem einn dag á hverju hausti þeysast nemendur og starfsmenn Hvolsskóla á fjöll í héraði með það að markmiði að þeir nemendur sem hafi verið í skólanum í 10 ár (1.-10. bekk) hafi gengið á tíu fjöll við útskrift. Hópurinn sem útskrifaðist síðasta vor var þar af leiðandi sá fyrsti sem lauk þeim merka áfanga.
Vilja vekja áhuga nemenda á hreyfingu og útivist
„Hvolsskóli er heilsueflandi skóli og hefur verið aðili að því verkefni frá haustinu 2015 þegar við sóttum fyrst um aðild. Því er áhersla hjá okkur á hreyfingu og hollustu. 1. bekkur gengur alltaf á StóruDímon, 2.-4. bekkur gengur á Lambafell, Háamúla og Vatnsdalsfjall, 5.-7. bekkur gengur á Fagrafell, Hrútkoll og Þórólfsfell, 8.-10. bekkur gengur á Drangshlíðartind, Einhyrning og Þríhyrning. Síðar í ferlinu fór leikskólinn hér á Hvolsvelli að bæta við ellefta fjallinu með því að ganga sama dag og við á Hvolsfjall með elsta árganginn. Við viljum með þessu vekja áhuga nemendanna á hreyfingu og útivist sem og á þessari náttúruparadís sem nærumhverfið okkar er,“ segir Birna Sigurðardóttir, skólastjóri Hvolsskóla í samtali við Dagskrána.
„Haustið 2021 gengum við áleiðis upp með Skógaá þar sem ófært var inn að Einhyrningi og Hrútkoll og þá kviknaði þessi hugmynd um að bjóða upp á göngu á Fimmvörðuháls í vali. Því buðu íþróttakennararnir Helgi Jens og Lárus Viðar galvaskir upp á þennan áfanga í vali haustið 2022. Ekki gekk okkur að selja þá hugmynd það haustið en nú í haust skráðu sig 18 nemendur í gönguna og fóru með í ferðina,“ bætir Birna við.
Útbúnaðurinn upp á tíu
Birna segir að það þurfi að fara varlega þegar leið eins og þessi er farin og að mikilvægt sé að vera vel útbúinn fyrir ferðina. „Kennarar sem bjóða upp á valið hittu nemendur og fóru yfir búnað og annað fyrir ferðina sem og sendu á foreldra. Við fylgdumst vel með veðurspá, höfðum samband við skálavörð í Baldvinsskála, ræddum við Björgunarsveitina Dagrenningu um fyrirhugaða ferð og fengum þar lánaðar Tetrastöðvar og því var gönguhópurinn alltaf í sambandi. Auk þess voru kennarar sem fóru með hópinn búnir undir flest; allt frá plástrum, upp í neyðartjald ef einhver hefði til dæmis snúið sig illa og þurft að bíða eftir bíl frá björgunarsveitinni. Með hópnum fóru síðan áðurnefndir íþróttakennarar ásamt tveimur öðrum kennurum. Til gamans má geta þess að nemendur í 9. og 10. bekk geta tekið þátt í Unglingadeild Björgunarsveitarinnar Dagrenningar, Ými og fengið það val metið inn sem valáfanga. Margir nemendanna hafa verið virkir í því starfi og hafa tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum og alls konar útivist,“ segir Birna.
Beint í boltaleik eftir 9,5 klukkustunda göngu
„Ferðin lukkaðist frábærlega. Hópurinn fór um 25 km og tók gangan um 9,5 klukkustundir. Veðrið lék við gönguhrólfana og allt eins og best verður á kosið. Það voru þreyttir ferðalangar sem lentu á Hvolsvelli rétt um kl. 22 eftir vinnudag frá kl. 7 um morguninn, en þá hafa þau flest þurft að rísa úr rekkju og koma sér í gallann fyrir daginn. Það vakti aðeins furðu þreyttra kennara að þegar krakkarnir komu í Bása eftir þessa löngu göngu var það fyrsta sem þeir gerðu að fara í boltaleik. Það voru því enn dropar eftir á tanknum,“ segir Birna brosandi, en trukkur frá Southcoast Adventure mætti með grill og pylsur til að fóðra göngugarpana áður en heim var haldið.
„Við teljum gríðarlegt forvarnargildi í verkefnum sem þessum. Það er verkefni sem ýta undir heilbrigðan lífsstíl; hreyfingu og útivist. Við erum mjög stolt af því hvað hægt hefur verið að bjóða upp á mikla fjölbreytni í vali hjá okkur á elsta stigi. Við fáum gjarnan aðila úr samfélaginu til að koma til okkar með valáfanga en svo erum við heppin með það að kennarahópurinn okkar er hugmyndaríkur og býr yfir mismunandi hæfileikum,“ segir Birna að lokum.