12.8 C
Selfoss

Þjónustumiðstöðin í Hraunborgum komin á sölu

Vinsælast

Þjónustumiðstöðin Hraunborgir í Grímsnesi var sett á sölu í morgun. DFS.is náði tali af Gunnari Birni Gunnarssyni, eiganda Hraunborga.

„Það eru persónulegar ástæður fyrir sölunni. Þegar ég keypti í maí í fyrra var ég giftur og sá fyrir mér að ég og konan myndum vinna að þessu saman en svo skildum við og þar af leiðandi er ég búinn að vera meira og minna einn í þessu sem hefur verið frekar erfitt. Það þyrfti í raun fjölskyldu til að keyra Hraunborgir áfram, hluti af þjónustumiðstöðinni er þriggja herbergja íbúð þar sem er í raun hægt að koma fyrir stórfjölskyldu,“ segir Gunnar Björn í samtali við DFS.is.

„Ég er kominn með þrjú tilboð og það fjórða er hangandi, það gerðist áður en ég setti á sölu. En ég er búinn að halda þjónustumiðstöðinni vel við og gera ýmsar uppfærslur á þessu rúma ári síðan ég tók við rekstrinum. Ég er búinn að stækka tjaldsvæðið um 60%, sömuleiðis heimtaugina um sömu prósentutölu, þannig að rými fyrir rafmagnsnotkun er stóraukið, auk þess að við höfum sett upp rafmagnsstaura allsstaðar. Sundlaug og heitir pottar eru nýmálaðir, með hálkuvörn í tröppum, sem og búningsklefarnir. Hluti af lóðinni hefur verið drenaður og aðstaðan innandyra hefur verið stórbætt, auk bættra öryggisatriða á leiksvæði og ýmislegt fleira,“ segir Gunnar Björn að lokum.

Nýjar fréttir