Pitstop bikarmótið í torfæru fer fram í námunum við Svínavatn kl. 11 laugardaginn 16. september næstkomandi. Nítján keppendur eru skráðir til leiks í þessa síðustu keppni ársins.
Er þetta önnur keppnin sem haldin er við Svínavatn, sú fyrri var haldin þann 29. júlí sl. en Sigurður Ingi Sigurðsson, gjarnan kallaður Siggi, er formaður Torfæruklúbbsins og maðurinn á bakvið þessa keppni. Dagskráin náði tali af Sigga, sem hefur haldið titlinum fyndnasti maður Suðurlands síðan keppni um þann titil var haldin árið 2011.
Næst vinsælustu myndböndin á internetinu
Siggi tók við formennsku Torfæruklúbbsins árið 2022 og setur markið hátt í að upphefja þessa skemmtilegu akstursíþrótt. „Torfæruklúbburinn er regnhlífarhugtak yfir torfæruökumenn- og lið víðsvegar af landinu. Hugsun Torfæruklúbbsins í dag er að koma torfærunni aftur á það „level“ sem hún var á hérna í gamla daga, við viljum koma þessu aftur af stað og við finnum fyrir miklum meðbyr, torfæran er á svakalegri uppleið núna sem er alveg frábært. Þetta er þrælskemmtilegt sport, bæði fyrir keppendur og áhorfendur. Fólk mætir á staðinn og hugsar sér að enginn geti keyrt upp þessar brekkur og adrenalínið fer svo á fullt bæði hjá áhorfendum og keppendum þegar þeir láta vaða upp lóðréttar brekkurnar. Mig langar að fullyrða að torfærumyndbönd séu næst vinsælustu myndböndin á internetinu í dag, á eftir einhverju sem við tölum ekki um í blaðaviðtali,“ segir Siggi og hlær.
Frábær stemning
Talið er að um 2000 manns hafi mætt á torfæruna á Svínavatni í júlí og Siggi segir að stemningin hafi verið frábær. „Fólk fékk sér sæti, mætti með teppi og öl eða kaffi í brúsa og fylgdist með, það var alveg geggjuð stemning og ég hef fulla trú á að hún verði ekki síðri um næstu helgi. Það hafa stundum verið fleiri á torfærukeppninni á Hellu heldur en hafa verið á öllum fyrstu deildar í knattspyrnu til samans, sem segir manni svolítið um hversu gaman það er að horfa á svona torfæru,“ segir Siggi að lokum.