Laugardagskaffi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis hefur verið fastur liður alla laugardaga frá hausti fram á vor ár hvert síðan 1996. Þar skiptast frambjóðendur síðasta framboðslista í bland við stjórnarmenn félagsins á að bjóða gestum og gangandi upp á kræsingar og rabb um málefni líðandi stundar auk þess sem kaffið veitir bæjarbúum þægilegan vettvang til að tjá hug sinn og skoðanir. Laugardagskaffið hófst á ný laugardaginn 2. september síðastliðinn.
Gegnum tíðina hafa ýmsir góðir gestir á borð við sveitastjórnarfólk, þingmenn og ráðherra komið sem sérstakir gestir ásamt fólki úr atvinnulífinu og félagastarfi og veitt okkur innsýn í sinn vettvang. Sérstakur gestur fyrsta fundar þessa vetrar var heimakonan og stolt okkar í Sjálfstæðisfélaginu, dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir, sem þessa dagana stendur í ströngu í sínum störfum og var fróðlegt að heyra í henni hljóðið um gang mála. Nú þegar hafa margir meldað sig sem sérstaka gesti hjá okkur og munum við auglýsa á facebook síðu félagsins, D-listinn í Hveragerði, það sem framundan er hverju sinni. Best er því að fylgja okkur að málum þar sem og annars staðar.
Aðrir fastir liðir í félagsstarfinu telja meðal annars jólafögnuð sjálfstæðismanna í Hveragerði, laugardagskaffi Asks, ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði, þegar þau taka við keflinu auk páskaeggjaleitar þeirra sem og vorslútts á síðasta kaffi vetrarins en þangað hefur formaður Sjálfstæðisflokksins jafnan vanið komur sínar ár hvert. Þá hefur félagið staðið fyrir ýmiskonar ferðum og viðburðum öðrum.
Það er von okkar að þið, ágætu Hvergerðingar, nærsveitungar og sjálfstæðismenn allir, sjáið ykkur fært að líta við hjá okkur á laugardagsmorgnum í vetur í félagsheimili okkar að Mánamörk 1 frá kl:10:30 – 12:00 og þiggja rómaðar veitingar í góðum félagsskap.
Ingibjörg Zoëga,
Formaður Sjálfstæðisfélags Hveragerðis