-6.1 C
Selfoss

Þórfríður nýr þjálfari hjá Frískum Flóamönnum

Vinsælast

Þórfríður Soffía Haraldsdóttir er nýr þjálfari hjá hlaupahópnum Frískum Flóamönnum á Selfossi. Þórfríður er menntaður sjúkraþjálfari og eigandi Slitgigtarskóla Þórfríðar. Hún hefur persónulega reynslu af hlaupum bæði á malbiki og utanvega. 

Þórfríður mun leggja áherslu á gæðaæfingar einu sinni í viku sem hún mun stýra sjálf og vera með á. Þá verður hún með styrktaræfingar, teygjur og fyrirbyggjandi æfingar til að minnka álag og líkur á meiðslum.

Fyrsta æfing  vetrarins með Þórfríði þjálfara verður þriðjudaginn 19. september nk. 

Um hlaupahópinn:

Æfingar hjá Frískum Flóamönnum eru þrisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:15 og á laugardögum kl. 9:10, mæting fyrir framan Sundhöll Selfoss.  Allir velkomnir hvort sem er byrjendur eða lengra komnir og æfingar eru öllum að kostnaðarlausu.

Félagsskapurinn er að jafnaði með u.þ.b. 30 virka æfingafélaga sem mæta á æfingar en misjafnt er hvort þeir mæta á eina eða allar æfingar vikunnar. Mæting er algjörlega frjáls og hver og einn getur ráðið hvernig hann vill mæta. Félagar eru á öllum aldri og með misjafnlega mikla reynslu af hlaupum.

Tvö stærstu verkefni hlaupahópsins eru brautarvarsla í Laugavegshlaupinu sem fer fram um miðjan júlí ár hvert og framkvæmd Stúdíó Sport hlaupsins, 5 og 10 km götuhlaup á Selfossi sem fram fer 1. maí ár hvert. 

Tuttugu manna hópur frá Frískum Flóamönnum er að fara til Slóveníu 7. september nk. að taka þátt í utanvegahlaupinu Julian Alps Trail Run, í vegalengdum allt frá 10 km með 290 m hækkun upp í 60 km með 3030 m hækkun. 

Við bjóðum nýja meðlimi velkomna á æfingar og hlökkum til að starfa með Þórfríði í vetur.

Stjórn FF

Nýjar fréttir