3.9 C
Selfoss

Samkomulag um uppskiptingu Alviðru og Öndverðarness II

Vinsælast

Héraðsnefnd Árnesinga og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, hafa gert með sér samkomulag um uppskipti á sameiginlegri eign; jörðunum Aðviðru og Öndverðanesi II við Sogið.

Jarðirnar hafa verið sameign þessara aðila um áratuga skeið. Árið 1973 gaf Magnús Jóhannesson bóndi í  Alviðru í Ölfushreppi út gjafabréf þar sem sýslunefnd Árnessýslu (nú héraðsnefnd Árnesinga) og Landvernd voru boðnar til eignar jarðeignir hans, Alviðra í Ölfushreppi og Öndverðarnes II í Grímsneshreppi, með mannvirkjum öllum, gögnum og gæðum óskertum.

Með samkomulaginu er jörðunum Öndverðarnesi II og Alviðru skipt upp. Í hlut Landverndar kemur Alviðra, bæði land, veiðiréttur og húseignir. Í hlut héraðsnefndar kemur Öndverðarnes II og hlunnindi þess. Samkomulagið er gert til að auðvelda rekstur og stjórnsýslu en nýting svæðisins verður áfram með áþekkum hætti og í fullu samræmi við gjafabréfið. Í gjafabréfi Magnúsar er kveðið á um landgræðslu og náttúruvernd, en jafnframt má nýta landið til skipulagðar sjálfbærrar búfjárbeitar, matjurtaræktunar, skógræktar, endurheimtar votlendis, útivistar og fræðslustarfsemi.

Með samkomulaginu skuldbindur héraðsnefnd Árnesinga sig til að vinna að því að fá Öndverðarnes II friðlýst á grundvelli 56. gr. náttúruverndarlaga og hefur  erindi þess efnis verið sent til stjórnvalda. Öndverðarnes II verður þannig opið almenningi til útvistar og unaðsstunda, núverandi göngustígum og merkingum verður viðhaldið, aðstaða til náttúruskoðunar verður bætt, furuskógarreitur hirtur og gerður aðgengilegur og frekari útbreiðsla hans takmörkuð og náttúrulegur birkiskógur varðveittur. Gestum Alviðru verður veittur óhindraður aðgangur að Öndverðarnesi II til fræðslu, útvistar og upplifunar. Málsaðilar munu reglulega koma saman til að fylgja eftir að farið sé að ákvæðum gjafabréfs Magnúsar.

Stjórn Landverndar hefur skipað stjórn fyrir Alviðru sem rekin verður sem sjálfstæður lögaðili með náttúruvernd og náttúrumennt að leiðarljósi. Stjórnina skipa Auður I Ottesen, ritstjóri og garðyrkjufræðingur, Tryggvi Felixson, auðlindahagfræðingur og Ágústa Þ. Jónsdóttir, umhverfisfræðingur og varaformaður Landverndar.

Meðfylgjandi mynd sýnir þegar skrifað var undir samninga um uppskiptin.

Frekari upplýsingar um Alviðru má finna hér.

Nýjar fréttir