-6.9 C
Selfoss

Að vinna saman að betra samfélagi í rusli

Guðmundur Ármann Pétursson.

Það vakti furðu að sjá frétt á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar og í fleiri miðlum s.l. mánudag þann 28. ágúst s.l. með fyrirsögninni; Grenndarstöð Eyrarbakka lokað.

Í fréttinni segir: „Vegna slæmrar umgengni hefur verið ákveðið að fjarlægja grenndarstöðina á Eyrarbakka tímabundið. Umgengni við grenndarstöðina er  algerlega óviðunandi og flokkun verulega ábótavant. Losun á grenndarstöðinni hefur verið vikuleg í allt sumar og ávallt hefur aðkoman  verið í ólagi. Staðsetning grenndarstöðvar verður endurskoðuð.“

Fréttinni fylgja svo þrjár myndir sem væntanlega eiga að tryggja réttmæti þessarar aðgerðar. Rétt sólarhring eftir tilkynninguna er grenndarstöðin horfin.

Ekki hefur komið fram hvenær hefja á vinnu við endurskoðun á staðsetningu grenndarstöðvar, né nokkuð annað um næstu skref s.s. hvort að grenndarstöð verði staðsett á Eyrarbakka.

Eðlilega fara samfélagsmiðlar á hliðina og kunnugleg stef byrja s.s. ekki var tæmt úr stöðinni vikulega eins og fullyrt er í fréttinni. Vantað hefur lok á nokkurn fjölda tunna í stöðinni í rúmlega hálft ár. Það er nánast sama hversu vel er um loklausa tunnu gengið, rusl mun fjúka upp úr henni. Fuglar s.s. hrafninn eiga greiða leið í sorpið og róta í því og dreifa. Í rúmlega hálft ár hafa íbúar vakið athygli sveitarfélagsins á að lok vanti og að ástandið sé óboðlegt án þess að brugðist hafi verið við.

Svo eru það auðvitað ferðamenn sem fullyrt er að geta aldrei gengið þolanlega um nokkurn hlut. Staðsetningin er röng og illa ígrundið og fleira má telja til.

Aðgerð sveitarfélagsins er gerræðisleg og umræðan er óvægin. Við eigum í senn að vita betur og að gera betur.

Ef þetta ástand hefur verið svona í allt sumar eins og fullyrt er í frétt sveitarfélagsins, því var þá ekki brugðist miklu fyrr við ástandinu af hálfu sveitarfélagsins með mildum og lausnarmiðuðum hætti í stað þess að láta það þróast með þeim hætti sem orðið er?

Á grunni jafnræðis og góðrar stjórnsýslu er mikilvægt að kynna hið nýja verklag fyrir öllum íbúum í sveitarfélaginu þannig að íbúar hvar sem þeir búa í Árborg viti á hvaða tímapunkti lélegrar umgengni grenndarstöð þeirra verði numin á brott á innan við sólarhring með fréttatilkynningu?

Væntanlega mun koma í ljós í þeirri kynningu hvort að hið nýja fyrirkomulag/verklag eigi einnig við um sorphirðu á lóðum einstaklinga og fyrirtækja í Árborg.

Að aðgengi íbúa á Eyrarbakka að lögbundinni þjónusta sveitarfélagsins skuli gróflega skert og það á tímapunkti þegar verið er að umbylta sorpmálum er einfaldlega rangt. Rétt er að hafa í huga að í lögum um meðhöndlun úrgangs segir;
„Sveitarstjórn ber ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skal sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu.”
Það ætti að vera öllum ljóst að sú staða sem allir íbúar á Eyrarbakka eru settir í með opinberri yfirlýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins og annari umfjöllun í framhaldi af henni er ómakleg og óverðskulduð.
Vinnum frekar að betra samfélagi með virku samtali, tölum í lausnum, bregðumst við jafn óðum.  Aukum fjölda grenndarstöðva á Eyrarbakka og sem víðast í sveitarfélaginu, þannig að allir íbúar hafi jafna möguleika á að vera til fyrirmyndar í sorpmálum sem öðrum málum.

Nýjar fréttir