0.6 C
Selfoss

Brynjólfur níræður

Brynjólfur Ámundason frá Kambi í Flóa, sem lengi sinnti fræðimennsku samhliða fullu starfi sem múrari, fagnaði 90 ára afmæli sínu föstudaginn 11. ágúst með fjölskyldu sinni og fáeinum vinum. Afmælishófið var haldið í Orlofsheimili múrara í Öndverðarnesi en þar hefur Brynjólfur lagt mikið af mörkum og meðal annars skrifað sögu staðarins. Hann slær hvergi slögu við og er nú kominn langt áleiðis með að skrásetja flestar bændafjölskyldur í Árnessýslu sem er geysimikið verk.

Sigmundur Stefánsson, Brynjólfur Ámundason, Jón M. Ívarsson og Guðni Ágústsson.

 

Brynjólfur lagði grunninn að Flóamannabók sem Jón M. Ívarsson er nú að skrásetja og eru 3. og 4. bindi um Villingaholtshrepp langt komin í vinnslu. Félagar Brynjólfs í Ritnefnd Flóamannabókar, Guðni Ágústsson formaður, Sigmundur Stefánsson gjaldkeri og Jón M. Ívarsson ritari heimsóttu Brynjólf á afmælisdaginn og færðu honum gjafir. Þar á meðal afmælisvísu sem fjórði félaginn, Guðmundur Stefánsson frá Hraungerði orti:

Heiðra viljum höfðingjann
sem hafði múriðn valið
Síðan fékkst við fróður hann
Flóamannatalið.

Fleiri myndbönd