-7 C
Selfoss

Símalaus Sunnulækjarskóli orðinn að veruleika

Vinsælast

89% foreldra og forráðamanna barna í Sunnulækjarskóla eru fylgjandi símalausu skólaumhverfi samkvæmt bréfi sem foreldrar og forráðamenn barna í Sunnulækjarskóla fengu sent frá Hermanni Erni Kristjánssyni í aðdraganda skólasetningar.

Í vor var lögð fyrir könnun þar sem foreldrum gafst kostur á að kjósa um hvort þeir væru fylgjandi símalausu skólaumhverfi eða ekki. Um 500 foreldrar svöruðu könnuninni og var mikill meirihluti, eða 89% fylgjandi símalausu skólaumhverfi. Segir í bréfinu að þessi afgerandi niðurstaða styðji þá ákvörðun skólans um að frá og með skólasetningu í dag, verði Sunnulækjarskóli símalaus skóli.

Hermann segir ástæðu ákvörðunarinnar að stóru leyti byggða á rannsóknum um líðan ungmenna, einbeitingu og námsframvindu í skólanum, þar sem símar og samfélagsmiðlar eru aðgengilegir. Einnig segir hann foreldra sem vilja stuðla að ábyrgri símanotkun um eftirlit og tímastjórnun hafa bent á að þeir geti ekki sinnt því hlutverki á skólatíma barna sinna.

Tölvukostur og skapandi rafrænt nám

Hermann segir marga kennara hafa lært að nýta símtækin til gagns í skapandi skólastarfi. „Símtæki erhinsvegar ekki hluti þeirra kennslugagna sem skólinn gerir kröfu um og því ekki æskilegt að þróa skólastarfið með þeim hætti. Markmiðið okkar í vetur er að efla rafrænt nám í efstu bekkjum skólans (8.-10. bekk) og undirbúa nemendur til að takast á við fjölbreytt og skapandi verkefni á víðum grunni. Til þess þarf skólinn að vera vel tækjum búinn og munum við bæta tækjakost á nýju starfsári til að tryggja gott aðgengi nemenda að tölvum í skapandi rafrænu námi. Síðustu ár hafa nemendur í auknum mæli óskað eftir því að nýta sínar eigin tölvur í skólastarfinu. Það er að sjálfsögðu í boði og skiljanlegt þar sem nemendur munu í mörgum tilfellum nýta sínar tölvur áfram í framhaldsnám og gott að kunna á sitt tæki þegar að því kemur.“

Nemendum er frjálst að hafa síma í töskunni, svo lengi sem þeir séu á hljóðlátri stillingu og trufli ekki á skólatíma. Foreldrum er bent á að hafa samband við skrifstofu skólans, þurfi þeir að ná sambandi við börn sín, eins verður nemendum leyft að hringja heim úr móttöku þegar þarf á að halda.

Nemendum verður heimilt að vera með síma í töskum sínum svo lengi sem þeir séu á hljóðlausri stillingu og trufli ekki á skólatíma.

Nýjar fréttir