Uppskeruhátíðin Haustgildi, menning er matarkista verður haldin í þriðja sinn á Stokkseyri fyrstu helgina í september, 2. – 3. Eins og felst í orðinu, þá fagnar Haustgildi haustinu og er óður til uppskerunnar í víðri merkingu. Framleiðendur kynna vöru sína, listamenn kynna verk sín og gestir njóta í vinalegu umhverfi Stokkseyrar við ströndina í Árborg.
Ánægja gesta og þátttakenda í þau skipti sem hátíðin hefur verið haldin, hefur hvatt okkur sem stöndum að Haustgildi til að færa ögn út kvíarnar og fá fleiri til að taka þátt og bjóða fleiri gestum að kynnast hátíðinni og Stokkseyri og ströndinni í Árborg.
Þeir framleiðendur sem taka þátt í ár eru Sólheimar, Smiðjan brugghús, Korngrís, Arabær, Eyrarfiskur, Sápufólkið, Goðanes grafinn þorskur, Pönnukökuvagninn með sultur, Jörth, Kartöfluostar Live Food og kartöflur frá Búð 2 í Þykkvabæ. Þá verður kvenfélagið á Stokkseyri einnig þátttakandi með loppumarkað og fiskisúpu á boðstólnum.
Ein af aðaláherslunum á Haustgildi er að tefla saman framleiðendum af þessu tagi í sambland við menningarviðburði. Í ár verður viðburðadagskráin sannarlega safarík og við erum mjög þakklát fyrir hversu margir hafa séð sér fært að taka þátt. Þeir rithöfundar sem taka þátt eru Ófeigur Sigurðsson, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Hlín Agnarsdóttir og Sandra B. Clausen. Lesið verður upp úr nýjum bókum eftir Einar Má Guðmundsson, Natalíu Stolyarova, Þórdísi Þúfu, Gunnar Theodór Eggertsson, Sigtrygg Baldvinsson og Bjarna Þór Pétursson. Bókamarkaður með verkum þessara höfunda, eins nýjar og kostur er, verður til sölu á bókamarkaði Sigvalda í bland við eldri bækur.
Stærsti viðburðurinn á Haustgildi í ár verður svo tónleikar sem verða haldnir í Stokkseyrarkirkju á laugardagskvöldið þar sem Krummi Björgvinsson spilar ásamt hljómsveit efni af væntanlegri plötu sem hann hefur verið að vinna að en mörg lög hafa fengið spilun á útvarpsrásum landsmanna síðustu misserin. Aðgangseyrir á þá tónleika er 3.600 kr og hægt að nálgast miða á tix.is. Fleiri tónlistarmenn koma líka fram en þau eru Ragnar Ólafsson úr Árstíðum, Freysteinn Gíslason kontrabassaleikari ásamt Helga R. Heiðarssyni á tenór saxafón og Óskari Kjartanssyni á trommur og Eyjólfi Eyjólfssyni söngvara og langspilssmið. Lokatónleikar Haustgildis verða á Brimrót í gamla félagsheimilinu Gimli á Stokkseyri á sunnudaginn 3. frá 17 – 18 en þar koma fram Stokkseyringarnir Júlíus Óttar og Kristín Björk Kristjánsdóttir, líka þekkt sem Kira Kira.
Það má síðast en ekki síst taka fram að hátíðin í ár fer að mestu fram í og kringum Orgelsmiðjuna á Stokkseyri, bryggjumegin við Menningarverstöðina eða gamla frystihúsið á Stokkseyri.
Allar frekari upplýsingar er að finna á haustgildi.is