1.7 C
Selfoss

Aldrei betra Sumar á Selfossi

Um síðustu helgi var mikið um dýrðir þegar bæjarhátíðin Sumar á Selfossi fór fram. Hátíðin hefur skapað sér fastan sess hjá bæjarbúum og er einstaklega skemmtilegt að ferðast um götur bæjarins þar sem skemmtilegur bæjarbragur myndast þegar íbúar gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn, skreyta húsin sín og jafnvel heilu göturnar með allskyns fígúrum og skrautmunum í litum hverfanna. Víða nýtir fólk hátíðina í götugrill og nágrannar kynnast, áður en haldið er í Sigtúnsgarðinn í hvíta tjaldið og á sléttusönginn sem er ómissandi hápunktur hátíðarinnar.

„Sumar á Selfossi fór fram úr okkar björtustu vonum, allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi, gestir skemmtu sér vel og heilt yfir gekk framkvæmdin snuðrulaust fyrir sig. Hátíðin heldur áfram að vaxa og dafna, ár frá ári, í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu. Margt hefur breyst og þróast frá fyrstu hátíð en eitt er það sem aldrei breytist og það er stuðið og gleðin sem er í algleymingi þessa uppáhalds helgi allra sannra Selfyssinga,“ segir Þórarinn Smári Thorlacius, framkævmdastjóri Sumar á Selfossi í samtali við Dagskrána.

Þórarinn segir að hátíðin hafi byrjað frábærlega og að sjaldan eða aldrei hafi verið jafn góð mæting á fimmtudagstónleikana sem í ár voru í höndum Jóns Jónssonar og í boði Lindex. Þá segir hann að um þúsund manns hafi mætt á tónleika og dansleiki sem haldnir voru í Sigtúnsgarði á föstu- og laugardagskvöldunum.

„Sumar á Selfossi er lífæð Knattspyrnufélags Árborgar og erum við ævinlega þakklátir bæjarbúum fyrir að styðja við starfsemi félagsins með því að taka þátt að ógleymdum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem stóðu þétt við bakið á okkur í þessu stóra verkefni. Takk fyrir okkur – Árborg allt!,“ segir Þórarinn að lokum.

HGL

Fleiri myndbönd