Fyrr í dag samþykkti bæjarráð Hveragerðisbæjar að falla frá samkeppnisviðræðunum við bjóðendur í útboði við Hamarshöllina. Ákveðið var að setja uppbyggingu Hamarshallarinnar á bið og ráðast þess í stað í framkvæmdir á upphituðum gervisgrasvelli í keppnisstærð.
Eyþór H. Ólafsson, fulltrúi D-listans í Hveragerðisbæ, samþykkti að falla frá samkeppnisviðræðunum við bjóðendur í útboði við Hamarshöllina með eftirfarandi bókun:
Það kemur fulltrúa D-listans ekki á óvart að nú sé hætt við svokallaðar samkeppnisviðræður um nýtt íþróttahús. Fyrir lá frá upphafi og raunar áður en byggingin var boðin út að þessi framkvæmd væri alltof dýr fyrir bæjarfélagið og engan veginn skynsamleg eins og staðan er nú. Undirritaður hnýtur hins vegar um þá skýringu sem sett er fram fyrir því að ekki sé raunhæft að fara í þessa framkvæmd nú. Sú skýring er bæði röng og óboðleg í alla staði.
Fyrir hefur legið um árabil að gera hefur þurft endurbætur á skólphreinsimálum Hveragerðisbæjar og hafa bæjarfulltrúar núverandi meirihluta sem þá sátu í bæjarstjórn væntanlega fylgst með þeirri umræðu sem átt hefur sér stað og átt að gera sér grein fyrir að ekki mætti slá slöku við þrátt fyrir meirihlutaskiptin.
Sú skólphreinsistöð sem reist var af mikilli framsýni á sínum tíma hefur staðið sig vel en ljóst að hún er ekki nægilega stór fyrir þá fjölgun íbúa sem orðið hefur síðustu árin þrátt fyrir þær endurbætur sem gerðar hafa verið á stöðinni. Þannig var veitt um 20-30 milljónum á ári í aðgerðir í og við stöðina undanfarin ár sem of langt mál væri að telja upp hér en bæjarfulltrúum þáverandi minnihluta og núverandi meirihluta ætti að vera fullkunnugt um. Í tíð fyrri meirihluta var þannig unnið mjög mikið að því að endurbæta stöðina og samhliða unnið að skoðun og mati á nýjum og hagkvæmum lausnum í samstarfi við sérfróða aðila á þessu sviði og í góðu samtali og samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Sú samfella og góði gangur sem var í þessari vinnu slitnaði við síðustu kosningar og nýjum meirihluta bar ekki gæfa til að halda áfram með þennan bolta fyrr en mögulega núna þrátt fyrir að forystumönnum í meirihlutanum ætti að vera fullkunnugt um stöðuna. Svo virðist raunar sem samskipti bæjaryfirvalda við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi verið með þeim hætti undanfarið að bréfum hafi verið svarað of seint og lítil bein samskipti og samráð átt sér stað á milli bæjaryfirvalda og fulltrúa HES. Leiddi þetta síðan til áminningar sem bæjarfélagið fékk og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Af skoðun og vinnu undanfarinna ára er ljóst að mikið er til af hagkvæmum og nútímalegum lausnum í fráveitumálum og voru fulltrúar bæjarins í viðræðum og samskiptum við aðila sem bjóða slíkar lausnir auk þess að vera í góðu samtali við HES um þessi mál. Það er í besta falli fljótræði að kasta fram fullyrðingum um að endurbætur og aukning afkastagetu fráveitukerfis bæjarins muni kosta 1 milljarð króna. Fyrir liggur að til eru mun ódýrari og nútímalegri lausnir sem hægt er að innleiða í hæfilegum skrefum sé skynsamlega haldið á málum.
Eyþór H. Ólafsson
Bæjarfulltrúi D-listans í Hveragerðisbæ