-4.3 C
Selfoss

Hljóðbækurnar opnuðu mér nýjan heim

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Sigríður Kristjánsdóttir

Sigríður Kristjánsdóttir er fæddur Sunnlendingur á Blesastöðum á Skeiðum árið 1956. Fyrstu sex árin bjó fjölskyldan í Kópavogi en síðan flutti Sigríður á Selfoss með móður sinni og systkinum, eftir fráfall föður þeirra. Þar hófst skólaganga hennar. Tveimur árum síðar fluttu þau í Hveragerði og þar lauk hún grunnskólanámi. Hún lærði síðan hjúkrun og hefur sinnt því starfi síðan, síðustu 35 árin á HNLFI. Sigríður er gift Gústafi Jónassyni og eiga þau fimm syni og ellefu barnabörn.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa bókina Undir Yggdrasil eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Ég fór í ferð til Suðureyja við Skotland og fyrir ferðina byrjaði ég að lesa bækurnar hennar sem tengjast þeim stað og og uppruna Auðar djúpúðgu. Byrjaði auðvitað á fyrstu skáldsögunni Auði og svo komu hinar svona koll af kolli. Þær heilla mig algjörlega núna.

Hvers konar bækur höfða helst til þín? 

Ég er nú næstum alæta á bækur. Les þó minna af erfiðum krimmum. Mér finnst yfirleitt gaman að lesa bækur eftir íslenska höfunda. Bækur með fjölskylduívafi held ég að heilli mig mest, til dæmis Ættarfylgjan eftir Ninu Wähä og auðvitað bækurnar hennar Lucindu Riley um systurnar sjö. Bíð spennt eftir fleiri þýðingum úr þeim bókaflokki. Bækur sem eru skrifaðar á vel kjarnyrtu máli heilla mig líka eins og skáldsögur Hallgríms Helgasonar og Jóns Kalmans Stefánssonar. Málfar þeirra er svo gott og þeir hafa svo góð tök á íslenskri tungu. Ekki má heldur gleyma Bjarna Harðarsyni og hans bókum og öllu því orðskrúði sem hann hefur yfir að ráða. Einnig les ég allar skáldsögur og smásögur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og elska þær algjörlega. Skáldverk Sigríðar Hagalín hafa líkað heillað mig sem eru mjög ólíkar sögur en skemmtilegar. Auðvitað les ég líka bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar. Svo dregst ég líka að sögum sem gerast í menningarheimum ólíkum okkar eins og Flugdrekahlauparann eftir Kahled Hosseini og bækurnar hennar Isabel Allende frá Chile og ýmsar bækur frá Kína. Auk þess les ég  líka allskonar léttmeti eins og verk Söru Morgan og fleira í þeim dúr. Ég les ekki mikið af ævisögum, en þó slæðist ein og ein með.

Ertu alin upp við bóklestur?

Mér gekk reyndar frekar ílla að verða læs en mamma kenndi mér að lesa. Ég man ekki eftir að hún læsi mikið fyrir okkur systkinin en hún sagði okkur margar sögur og hvatti okkur til lesturs. Ég var ekki svona bókasafnsstúlka en ég las nú alltaf eitthvað, til dæmis Öddu bækurnar, Heiðu bækurnar, Fimm bækurnar og fleira í þeim dúr. Ég man eftir að til var mikil bók sem hét Stóra Ævintýrabókin, fallega myndskreytt með öllum gömlu góðu ævintýrunum. Sem unglingur eignaðist ég svo söguna um Pollýönnu og það var mikil uppáhaldsbók.

Segðu aðeins frá lestrarvenjum þínum.

Best er að lesa upp í rúmi. Í einhver ár las ég lítið annað en skólabækurnar mínar. Svo tóku við allar barnabækurnar sem ég las upphátt fyrir syni mína og vegna lesblindu þeirra las ég mikið af skólabókum þeirra líka upphátt. Ég las allskonar bækur fyrir þá alveg fram á unglingsár þeirra. Þeir völdu sér ýmiskonar bækur sem ég las fyrir þá á kvöldin, man sérstaklega eftir ævisögu ævintýramannsins Harry Houdini. Alltaf var nú samt líka bók á náttborðinu mínu og ég las í nokkrar mínútur fyrir svefninn. Núna er ég komin upp á lag með hljóðbækur og þá opnast mér alveg nýr heimur. Nú get ég hlustað um leið og ég prjóna eða geri önnur verk heima. Ég spæni upp allskonar bækur núna.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Held ég telji fyrstan Ólaf Jóhann Sigurðsson. Bækurnar hans eru bæði hugljúfar og skrifaðar á svo fallegu máli. Einnig skáldverk Jóns Kalmans Stefánssonar og hans bækur, fjölskyldusögur og oft í umhverfi sem ég kannast við.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Já, mjög oft hefur bók rænt mig svefni. Eftirminnilegast er þegar ég var að lesa Flugdrekahlauparann. Þá var ég á miklu ferðalagi erlendis og mátti svo sannarlega ekki við því að missa nætursvefn. Síðan passa ég mig á að hafa ekki svona spennandi bækur með í ferðalög.

En að lokum Sigríður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Ef ég væri rithöfundur myndi ég líklega skrifa sögur fólks til dæmis hennar móður minnar. Ég held reyndar að ég eigi eftir að setja þá sögu á blað. Einnig væri gaman að skrifa barnasögur, fallega myndskreyttar sögur.

___________________________________________________

Tillögur að skemmtilegum lestrarhestum sendist á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir