-9.2 C
Selfoss

Vínstofa Friðheima opnar með pompi og prakt

Vinsælast

Glæsileg ný vínstofa Friðheima var opnuð við hátíðlega athöfn síðasta föstudag. Fjöldi fólks lagði leið sína í sveitina til að samgleðjast Friðheimafjölskyldunni við tilefnið, en parið Dóróthea Ármann og Kristján Geir Gunnarsson standa að baki Vínstofunni, ásamt foreldrum Dórótheu og eigendum Friðheima, þeim Knúti Rafni Ármann og Helenu Hermundardóttur.

Friðheimafjölskyldan. F.v: Karitas Ármann, Tómas Ingi Ármann, Matthías Jens Ármann, Arnaldur Ármann, Helena Hermundardóttir, Kristján Geir Gunnarsson, Dóróthea Ármann og Knútur Rafn Ármann. Ljósmynd: Dagskráin/HGL.

Stutt ferðalag á suðrænar slóðir

Vínstofan er sannarlega ævintýraleg og tekur á móti gestum með fáguðu, suðrænu yfirbragði, sem minnir mikið á heimsókn á ítalska vínekru. Með klifurjurtum í loftinu, vínrekkum sem teygja sig upp í sólina, fullum veggjum af fallegum pottaplöntum og fallegum, hágæða antíkhúsgögnum, sem fjölskyldan sótti meðal annars til Hollands, færir Vínstofan gesti beinustu leið úr íslenska dumbungnum til suðrænna slóða.

Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Í húsinu eru þrjú fullbúin fundarherbergi, tilvalin fyrir fundi að öllu tagi, vinnustofur, námskeið og þar frameftir götum. Með haustinu stendur til að flétta inn matar- og vínupplifun með sögustund, sem hentar vel fyrir einstaklinga og litla hópa. „Svo er þetta auðvitað fullkominn staður fyrir viðburði; tónleika, uppistand, brúðkaup og svo frameftir götunum, segir Dóróthea í samtali við Dagskrána.

Dóróthea Ármann og Andrea Eyland við opnun Vínstofu Friðheima. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Hugmyndin að vínstofunni kviknaði í Covid. „Þá vorum við svo heppin að nágrannar okkar, Dagur og Ína, vildu selja okkur garðyrkjustöðina sína, Birkilund, en þá vorum við að fara að stækka garðyrkjustöðina okkar og byggðum þar 5600 fermetra gróðurhús. Birkilundi fylgdu gömul gróðurhús í flottu ásigkomulagi sem urðu til þess að við fórum að velta því fyrir okkur hvað við gætum nýtt þau í, en þannig kviknaði hugmyndin að Vínstofunni,“ segir Dóróthea.

Samkomustaður fyrir sveitunga

Ljósmynd: DFS.is/HGL.

„Við Kristján vorum farin að huga að því að flytja austur úr Reykjavík og langaði að vera hluti af því að búa til samkomustað fyrir sveitungana og aðra gesti til að hittast á kvöldin. Þannig fór hugmyndin af stað og svo erum við svo heppin að hafa svo mikið af frjóu fólki í kringum okkur, ef einhver hendir bolta á loft þá er einhver annar sem grípur hann. Sem dæmi kom ég með hugmynd um að nýta sviðið sem fundarherbergi og svo tók einhver annar við hugmyndinni og bætti við bókahillunum og þá var hugmyndin komin miklu lengra, en þetta hefur verið rauði þráðurinn í öllu ferlinu, frábært samstarf hjá okkur öllum. Við erum líka með frábærlega flottann smið, hann Karl Jóhann Bridde, sem náði að gera allar hugmyndirnar okkar að veruleika,“ bætir Dóróthea við.

„Lítill“, 17 blaðsíðna vínseðill

Vínstofan er hugsuð sem vín- og vinnustofa. „Við ætluðum bara að byrja smátt en erum með veglegan vínseðil sem telur um 17 blaðsíður núna og fer bara stækkandi. Hugsunin var að byrja bara einfalt, en það er góð lýsing við hvert vín sem lýsir sögu og sérkennum hvers víns, sem er meginástæðan fyrir stærð seðilsins, en það er auðvelt að gleyma sér í lestrinum. Ég hef í það minnsta haft mjög gaman að því að búa hann til,“ segir Dóróthea og brosir sínu breiðasta.

Ljósmynd: DFS.is/HGL

Vínstofan er hugsuð sem samkomuhús fyrir sveitunga og gesti. „Það er hægt að koma hingað inn í vínglas, hitta fólk, njóta stundarinnar eða bara glugga í bók, við erum með mjög flotta bókahillu með einstöku bókasafni, fólkið í sveitinni er búið að vera svo yndislegt að gefa okkur gamlar og fallegar bækur og ég er búin að eyða mörgum klukkutímum í að skoða þær. Ég hef gleymt mér við lestur eftir vinnu og rankað við mér þegar Kristján sendir mér skilaboð og spyr hvort ég sé ekki á leiðinni heim,“ segir Dóróthea og hlær.

Prinsippatriði að opna í júní

Framkvæmdir við Vínstofuna hófust seint á síðasta ári. „Við gerðum þetta á smá spretti, þau voru löng dagsverkin, en við vorum alltaf ákveðin í að opna í júní, það var mikið prinsippatriði og við erum svo glöð að það hafi tekist, síðasta daginn í júní. Við opnuðum óformlega á miðvikudag, erum búin að vera að prufa okkur áfram, læra að gera kokteila og sjá hvað fólkið biður um, og erum svo glöð að opna formlega í dag, nú er þetta bara byrjað,“ segir Dóróthea hæstánægð að lokum.

Vínstofa Friðheima er opin alla daga 13-22, það þarf ekki að bóka fyrirfram og allir eru velkomnir.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður DFS.is.

Nýjar fréttir