-9.2 C
Selfoss

Vinátta í nærumhverfinu

Vinsælast

Þróunarverkefni leikskólans Strandheima

Skólaárið ´22-´23 hefur leikskólinn Strandheimar staðið fyrir þróunarverkefni sem ber heitið Vinátta í nærumhverfinu. Í stuttu máli snýst verkefnið um að stuðla að tækifærum til að efla tengsl á milli elstu nemenda leikskólans þvert á starfsstöðvar og veita þeim möguleika á að auka þekkingu sína á nærumhverfi og sögu þorpanna, Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þannig hittist hópurinn einu sinni í mánuði, til skiptis á Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem þau verja heilum degi saman við leik og önnur verkefni.

Gönguferðir og heimsóknir

Það er sannarlega mikið framboð af náttúrusvæðum, menningu og annarri starfsemi í þorpunum og hafa móttökurnar verið frábærar hjá þeim aðilum sem við höfum leitast eftir að vera í samstarfi við og vill leikskólinn þakka eftirtöldum aðilum fyrir hlýju og velvild í garð nemenda og starfsfólks:

  • Foreldrar elstu nemenda Strandheima sem sáu um að keyra börnin sín á milli þorpa þegar hittingarnir stóðu yfir.
  • Stjórnendur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES) ásamt umjónarkennara 1. bekkjar og tónmenntakennara, en nemendur okkar tóku þátt í tónlistarstarfi með 1. bekk í þau skipti sem hópurinn hittist á Stokkseyri.
  • Orgelsmiðja Björgvins Tómassonar á Stokkseyri. Björgvin var með skemmtilega kynningu á orgelsmiðju sinni ásamt því að stjórna fjöldasöng með orgelundirleik.
  • Hlöðver Þorsteinsson, dúfnabóndi á Eyrarbakka og kona hans Þóra Ósk Guðjónsdóttir. Hlöðver sýndi börnunum dúfurnar og lét þær leika listir sínar í háloftunum við mikinn fögnuð.
  • Hjónin Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristín Ragnarsdóttir, eigendur Bakkastofu á Eyrarbakka. Börnunum var boðið í heimsókn á Bakkastofu þar sem þau áttu góða samveru með hjónunum. Valgeir lék á gítar á meðan börnin sungu og var þá ákveðið að hann myndi sjá um undirleik við útskriftarathafnir Strandheima í lok maí. Þar sungu börnin meðal annars lag Valgeirs, Vikivaki.
  • Byggðasafn Árnesinga, þar af Sjóminjasafnið, Húsið og Geymslan þar sem börnin fengu að fræðast um gamla tíma hér á svæðinu.
  • Veiðisafnið á Stokkseyri. Börnin voru mjög áhugasöm um að fræðast um og sjá dýr frá öllum heimshornum.
  • Skógræktarfélag Eyrarbakka með aðsetur í Hallskoti, en hópurinn fékk að verja heilum degi í Hallskoti á lokadegi verkefnisins. Þar tóku þau þátt í útinámi og nutu þess að leika frjálst í skóglendinu. Þess má einnig geta að Skógræktarfélagið styrkir leikskólann ár hvert með plöntum sem útskriftanemar leikskólans fá í kveðjuskyni við lok leikskólagöngu þeirra.

Verkefnið komið til að vera

Það er mat kennara við leikskólann að verkefnið hafi skilað tilskyldum markmiðum og eru bundnar miklar vonir við að ávöxtur þess skili sér í góðu framtíðarveganesti fyrir nemendur í formi vináttutengsla, víðsýni og öryggi fyrir nærumhverfinu. Við endurmat á verkefninu var einnig leitað eftir röddum foreldra og staðfestir upplifun þeirra mat kennara.

Auk þróunarverkefnisins hefur hópurinn sameinast í nokkur skipti á þessu skólaári þar sem BES hefur boðið þeim að taka þátt Barnabæjarverkefni sínu, í íþróttatímum á Stað á Eyrarbakka og í vorskóla BES sem hluti af verkefninu Brúum bilið milli skólastiga. Eins hafa þau tekið þátt í sameiginlegri útskriftarferð sem styrkt var af kvenfélögum þorpanna og Vorferð á vegum foreldrafélagsins þar sem öll börn leikskólans, ásamt foreldrum og kennurum, komu saman á sveitabænum Holti rétt fyrir utan Stokkseyri. Kann leikskólinn foreldrafélaginu og kvenfélögunum bestu þakkir fyrir að gera ferðir sem þessar mögulegar.

Hægt er að fræðast nánar um starfsemi Strandheima á heimasíðu leikskólans.

Strandheimar

Nýjar fréttir