-7.8 C
Selfoss

Fjögur sunnlensk verkefni hljóta Lóustyrk

Tuttugu og fimm verkefni fengu styrk úr Lóunni, nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina á dögunum og af þeim voru fjögur sunnlensk verkefni; Frostþurrkun ehf., Eden ehf., Öldurhús ehf. og Þekkingasetur Vestmannaeyja.

Hlutverk Lóunnar er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæðanna sjálfra. Í ár var sérstaklega horft til verkefna sem komin eru af byrjunarstigi og tengjast samfélagslegum áskorunum á borð við loftslagsmál, sjálfbærni í heilbrigðis- og menntamálum og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Heildarfjárhæð úr Lóu er 100 milljónir króna. Alls bárust 97 umsóknir á fjölbreyttum sviðum með ólíkum viðfangsefnum. Allt frá hugmyndum á frumstigi til stærri verkefna sem eru komin vel á veg. Verkefni í öllum landshlutum fengu styrk og kynjahlutfall er nokkuð jafnt.

Frostþurrkun ehf. hlaut styrk að upphæð 6.559.000 fyrir verkefnið Verðmætaaukning hliðarafurða laxa úr landendi. Verkefnið snýr að þróun afurða úr hliðarafurðum laxa úr landeldi með notkun frostþurrkunar.

Eden ehf. hlaut 2.000.000 króna styrk til verkefnisins Binding og notkun á íslensku bergi. Verkefni Eden snýst um að nýta grjót sem fellur til við námuvinnslu sem hliðarafurð, binda inn í staðlaðar einingar til útflutnings sem fullbúna vöru sem nýtist t.d sem ýmiskonar vörn gegn áhrifum náttúruvár.

Öldurhús ehf. hlaut 730.000 króna styrk fyrir verkefnið Sjálfbærni í mjaðargerð. Markmið verkefnisins er að setja á laggirnar mjaðargerð á Hellu með eigin matjurtagöðrum, gróðurhúsum og heimajarðgerð til að sporna við sóun og auka sjálfbærni.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja hlaut styrk að upphæð 5.000.000 króna fyrir verkefnið Veiðar og vinnsla á rauðátu við Vestmannaeyjar.  Verkefnið snýst um að kanna möguleika á veiðum og vinnslu á rauðátu við suðurströnd landsins. Talsverðar rannsóknir hafa verið stundaðar síðustu tvö ár í svokölluðu Háfadjúpi og ætlunin á þessu ári er að skala þessar rannsóknir upp með búnaði sem tekinn verður á leigu frá Zoocoa (Calanus AS)

Fleiri myndbönd