-1.4 C
Selfoss

Níræður sundkappi kom heim með tvenn gullverðlaun

Hinn níræði Tómas Jónsson tók þátt í landsmóti 50+ í Stykkishólmi um síðustu helgi.

Var Tómas sá eini sem keppti í aldursflokki 90+, bæði í 50 og 100 metra bringusundi á mótinu og fór létt með að hreppa gullið eftir frábæra frammistöðu.

Tómas, sem er frá Þóroddsstöðum í Ölfusi, starfaði sem lögreglumaður á Keflavíkurvelli til ársins 1963, þegar hann fluttist á Selfoss þar sem hann hélt áfram lögreglustörfum til ársins 2002.

Merkilegt þykir að í ár eru 77 ár síðan Tómas stóð á verðlaunapalli í Hveragerði, árið 1946, þá 13 ára gamall, þar sem hann vann keppni í 1000 metra bringusundi. „Þá var maður þolinn,“ segir Tómas hlæjandi í samtali við Dagskrána, en hann synti síðast 1000 metra bringusund fyrir 7 árum síðan, þegar 70 ár voru liðin frá því hann stóð fyrst á verðlaunapalli.

Tómas Jónsson á árum áður. Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Tómas syndir 2-3 sinnum í viku og hefur gert megnið af ævinni. Hann setur aldurinn ekki fyrir sig, enda með eindæmum hraustur, og vinnur í 4 tíma á dag í Héraðsskjalasafni Árnesinga og hefur gert síðustu 12 árin, en Tómas hefur ráðið sig hjá safninu til 100 ára aldurs. „Ég hef sagt við þau að ég verði þarna hjá þeim, lifandi eða dauður, út ráðningarsamninginn,“ segir Tómas kíminn að lokum.

Fleiri myndbönd