-5.5 C
Selfoss

Eflum uppsveitir – saman

Vinsælast

Heilsugæslan í Laugarási hefur að undanförnu fengið mikla umræðu og ekki er allt rétt sem þar hefur verið rætt. Í ljósi þess tel ég rétt að skýra nokkur atriði svo íbúar uppsveitanna sem og aðrir geti betur áttað sig á málinu.

Hrunamannahreppur keypti stórt húsnæði við Hrunamannaveg 3, í miðbæ Flúða,  í upphafi árs þar sem fyrirhugað var að koma fyrir skrifstofurýmum og mögulega annari þjónustu. Þegar kaupin voru orðin að veruleika höfðu forsvarmenn Heilbrigðiststofnunar Suðurlands (Hsu) samband og spurðu um húsnæðið og áform okkar um framtíð þess. Við brugðumst að sjálfsögðu við þeirra óskum, sýndum þeim húsnæðið og áttum samtal við forsvarsmenn Hsu um málið.  Þetta húsnæði er nýlega byggt, enn óinnréttað og hentar fjölbreyttri starfsemi vel, sama hvort þar væri á ferðinni heilsugæsla eða önnur starfsemi.

Heilsugæsla uppsveitanna er í dag í Laugarási samkvæmt ákvörðun frá fyrri hluta síðustu aldar.   Því miður er Laugarás eini þéttbýliskjarni uppsveitanna sem ekki hefur þróast í takt við aðra þéttbýliskjarna hér á svæðinu á undanförnum áratugum. Ástæðan er að mínu viti einföld, eignarhald jarðarinnar gerir það að verkum að Laugarás verður undir í áherslum þeirra fjögurra sveitarfélaga sem eiga jörðina Laugarás.

Lyfjaversluninni sem var í Laugarási, en slík verslun er forsenda fyrir starfsemi heilsugæslu almennt, lokaði í vetur sem leið og afar litlar líkur eru á því að ný lyfjaafgreiðsla opni í Laugarási enda er slík starfsemi undantekningalaust starfrækt í stærri byggðakjörnum.  Því er líklegt að lyfjaverslun opni um leið og heilsugæslan myndi opna á Flúðum.

Við sem búum í uppsveitum Árnessýslu eigum að sjá tækifærin sem myndu felast  í nýrri heilsugæslu á Flúðum, heilsugæslu sem myndi dafna í þéttbýliskjarna sem er óumdeilt fjölmennasta kjarnasamfélagið á svæðinu. Auk þess er staðsetning Flúða mjög miðsvæðis þegar horft er til íbúafjölda en ekki síður ef litið er til framtíðar með tilkomu Hvammsvirkjunar og  þeirrar nýju vegtengingar sem þá verður til við uppsveitir Rangaárvallasýslu.

Við hér í Hrunamannahreppi horfum til framtíðar og sjáum þau miklu tækifæri sem munu myndast bæði hér og víða í nágrenninu vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem á sér nú stað t.d. í Þjórsárdal en einnig víða annars staðar hér í uppsveitunum. Þau tækifæri eru mikil enda erum við á sama atvinnusvæði og við styrkjum hvort annað.

Horfum til framtíðar með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Tökum ákvarðanir með næstu kynslóð í huga en ekki út frá aðstæðum og samfélagi eins og var í kringum aldamótin 1900.

Jón Bjarnason
Oddviti Hrunamannahrepps

Nýjar fréttir