Gul veðurviðvörun var gefin út fyrir stóran hluta landsins vegna suðvestan storms sem er enn á leið yfir landið. Björgunarsveitin Kári í Öræfum og björgunarfélag Hornafjarðar komu að aðgerðum þegar mikið hvassviðri gerði í Öræfum upp úr kl 10 í morgun og allmargir bílar fuku út af veginum.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að sérstaklega hvasst hafi verið við Fjallsárlón, þar sem varla var stætt. Ferðafólk var almennt í vandræðum og var þjóðveginum lokað frá Skaftafelli að vestan og Jökulsárlóni að austan, á meðan mesta hvassviðrið gekk yfir, en auk bílanna sem fuku út af veginum fauk hluti yfirlags vegarins upp og liggur á hvolfi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Um hádegið var vind tekið að lægja en gul viðvörun er enn í gildi fyrir miðhálendið og Suðausturland og stendur til 18:00 í dag. Engar fregnir hafa borist af meiðslum ferðamannanna.