Ný rafmagnsrúta Guðmundar Tyrfingssonar ehf. sem bættist í flotann á dögunum verður til sýnis fyrir áhugasama í dag klukkan 16:30 við höfuðstöðvar GTS að Fossnesi á Selfossi.
Nýja rútan er lúxusrúta fyrir 49 farþega, með leðursætum, salerni og USB hleðslu við öll sæti. Er þetta fyrsti bíllinn á landinu sem er með rútusætum en GTS hefur áður flutt inn rafmagnsstrætisvagna sem eru í notkun hjá Strætó bs.
Tyrfingur Guðmundsson verður á staðnum og svarar spurningum um rútuna og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vígir gripinn áður en farið verður á rúntinn.