Glamrock hljómsveitin Slysh frá Hveragerði landaði 3. sæti í söngkeppni Samfés sem fram fór í Laugardalshöll þann 6. maí síðastliðinn. Hljómsveitin er skipuð þeim Gísla Frey Sigurðssyni sem syngur, Björgvin Svan Mánasyni á gítar, Eyvindi Sveini Lárussyni á gítar, Úlfi Þórhallssyni á bassa, Stefáni Gunngeiri Stefánssyni á trommur og Hrafnkeli Erni Blöndal Barkarsyni á hljómborð. Fluttu þeir gamla Mötley Crüe slagarann Home Sweet Home.
Dómnefndina skipuðu þau Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Júlí Heiðar Halldórsson, Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir og Klara Ósk Elíasdóttir.
Allir meðlimir Slysh eru nemendur við Grunnskólann í Hveragerði og voru fulltrúar félagsmiðstöðvarinnar Skjálftaskjóls. Hljómsveitin varð til eftir að strákarnir, sem eru 14 og 15 ára gamlir, fóru saman í hljómsveitarval í skólanum og náðu jafn vel saman og raun ber vitni.
Útkoman algerlega frábær
„Það er skemmst frá því að segja að starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar og strákarnir séu búin að leggja blóð svita og tár í þetta og útkoman var algerlega frábær,“ segir Kristín Eir Helgadóttir, móðir Gísla í samtali við Dagskrána.
Meðfylgjandi myndir tók Dagný Dögg Steinþórsdóttir.