-7.7 C
Selfoss

Það gengur vel í Ölfusi

-Rekstrarniðurstaða jákvæð um 359 milljónir

Í gær fór fram fyrri umræða Bæjarstjórnar Ölfuss um ársreikninga sveitarfélagsins fyrir árið 2022. Niðurstaða þeirra sýna með óyggjandi hætti að það gengur vel og reksturinn er sterkur. Jákvæð rekstrarniðurstaða er á bæði A og B hluta sem er alls ekki sjálfgefið þessi dægrin eins og þeim sem fylgjast með fréttum dylst ekki. Rekstur sveitarfélaga er víða þungur og eru nú um 20 sveitarfélög undir smásjánni hjá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Ástæðurnar eru e.t.v. margar en þetta sýnir glögglega hversu mikilvægt það er að vel sé haldið utan um reksturinn.

Afkoma nýtt í innviði

Eins og flestir vita þá eru vextir háir um þessar mundir og verðbólga í hæstu hæðum. Það er því gott að geta frestað lántökum og nýtt jákvæða rekstrarniðurstöðu í þá innviðauppbygginu sem framundan er. Íbúum fjölgar hratt í sveitarfélaginu og ljóst að miklar áskoranir eru framundan t.d. í uppbyggingu leik- og grunnskóla. Nýr leikskóli er á teikniborðinu og vonumst við til að útboð á jarðvinnu vegna þeirrar framkvæmdar fari fram á næstu vikum. Þá er undirbúningur að stækkun Grunnskólans í Þorlákshöfn hafinn sem og stækkun á Grunnskólanum í Hveragerði. Þá er auðvitað vert að nefna áframhaldandi uppbygging hafnarinnar sem er í fullum gangi.

Verðmætasköpun forsenda velferðar

Sú stefna að sækja fram á forsendum verðmætasköpunar er sannarlega að skila sér. Skatttekjur án framlaga Jöfnunarsjóðs eru að hækka sem skýrist einkum af hækkun útsvars og fasteignagjalda af nýju atvinnuhúsnæði. Búast má við verulegri aukningu hvað það varðar enda framkvæmdir þegar hafnar við stærstu atvinnuverkefni landsins í landeldi. Þá er Kambar byggingavörur sem framleiðir glugga og hurðir að reisa eina fullkomnustu verksmiðju í Evrópu hér við anddyri Þorlákshafnar. Mikil uppbygging er í framleiðslu og áframvinnslu þörunga upp á Hellisheiði og í Þorlákshöfn og auðvitað mörg smærri en ekki síður spennandi verkefni í fullum gangi. Allt myndar þetta grundvöll bættrar þjónustu og velferðar íbúa sveitarfélagsins.

Það eru bjartir tímar framundan nú sem endra nær og forrréttindi að fá að vinna í þágu íbúa Ölfuss!

Grétar Ingi Erlendsson
Formaður Bæjarráðs

Fleiri myndbönd