1.7 C
Selfoss

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar 2022

Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2022 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar föstudaginn 28. apríl 2023.

Rekstrarniðurstaða Sveitarfélagsins Árborg samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 3.107,5 millj.kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 2.049,4 millj.kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Vega þar þyngst fjármagnsgjöld sem eru 991 millj.kr. umfram áætlun sem rekja má til hærri verðbólgu en áætlun gerði ráð fyrir.

Árið einkenndist af ört hækkandi verðbólgu sem leiddi til aukins rekstrarkostnaðar og aukins kostnaðar vegna verðbóta af langtímalánum. Kostnaður vegna verðbóta nam 2.086,9 millj.kr. eða 847,4 millj. kr.  meira en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Tekjur ársins námu alls 15.286,0 millj.kr., launakostnaður 9.050,2 millj.kr., hækkun lífeyrisskuldbindinga nam 95,2 millj.kr. og annar rekstrarkostnaður var 5.703 millj.kr. og nemur framlegð af rekstri A- og B-hluta samtals 437 millj.kr. Afskriftir voru 831 millj.kr. og var rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði neikvæð um 394 millj.kr. Fjármunatekjur, fjármagnsgjöld og tekjuskattur námu 2.713,5 millj.kr. og var rekstrarniðurstaða ársins því neikvæð um 3.107,5 millj.kr.  eins og áður sagði. Veltufé frá rekstri var 70,7 millj.kr. eða 0,46% af tekjum.

Skuldaviðmið komið í 158,4%

Skuldahlutfall hefur hækkað á árinu 2022 vegna fjárfestinga og aukinnar verðbólgu. Skuldaviðmið samkvæmt reglugerð nr. 502/2012 er nú komið í 158,4% miðað við 138,5% árið áður og ljóst að grípa þarf til aðgerða. Sveitarfélagið Árborg hefur sett sér markmið með það að leiðarljósi að uppfylla að lágmarki kröfur sem kveðið er á um í lögum og standast lágmarksviðmið Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Til þess að það náist þarf að beita blöndu af aðgerðum sem ná til allra þátta í starfsemi sveitarfélagsins.

Skýr framtíðarsýn í fjármálum Sveitarfélagsins Árborgar

Í ljósi stöðu sveitarfélagsins hefur bæjarstjórn Árborgar unnið með ráðgjöfum KPMG að fjárhagslegum markmiðum og stefnu næstu ára í þeim tilgangi að ná tökum á fjármálum sveitarfélagsins. Bæjarstjórn hefur auk þess gert samkomulag við Innviðaráðherra um fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit sem gildir til apríl 2025.

Unnin hefur verið aðgerðaráætlun í samræmi við samkomulag innviðarráðherra og sveitarfélagsins,  sem fengið hefur nafnið „Brú til betri vegar“ sem lögð var fram til samþykktar á bæjarstjórnarfundi í dag.  Bæjarstjórn og stjórnendur sveitarfélagsins hafa unnið sameiginlega að því að greina fjármál og rekstur sveitarsjóðs og B-hluta fyrirtækja, með aðstoð ytri ráðgjafa. Mikil vinna hefur þegar farið fram og áhersla hefur verið lögð á að tryggja sameiginlegan skilning á stöðunni sem og samstöðu kjörinna fulltrúa og stjórnenda um markmið og nauðsynlegar aðgerðir. Íbúar hafa verið upplýstir um stöðuna, fengið tækifæri til að tjá sín sjónarmið og leggja fram tillögur til úrbóta.

Samþykkt aðgerðaráætlun

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi í dag aðgerðaáætlun sem er sett fram á grundvelli samnings Sveitarfélagsins Árborgar við innviðarráðherra, dags. 27. mars 2023. Aðgerðaáætlunin er lifandi skjal og munu stjórnendur sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar fylgjast reglulega með framgangi aðgerða og gera viðeigandi breytingar eftir því sem verkefninu vindur fram. Þar sem enn ríkir talsverð óvissa, í efnahagsumhverfinu og starfsemi sveitarfélagsinser því ljóst að sveitarfélagið þarf að leita allra leiða til að auka tekjur og lækka útgjöld. Þar þarf að horfa til frekari forgangsröðun fjárfestinga, hagræðingar í rekstri og nýtingu þeirra tekjustofna sem sveitarfélaginu er heimilt að nota.

Fleiri myndbönd