Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti fyrirtækinu Jáverk í gær Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.
„Það er ánægjulegt að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur á undanförnum árum í umhverfis- og loftslagsmálum, sem eru ein brýnustu mál samtímans. Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins og er ein af ástæðum þess Kuðungurinn er nú veittur í tveimur flokkum, í flokki stærri og minni fyrirtækja og stofnana,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Það er ekki síður gleðiefni að verða vitni að þeirri grósku sem á sér stað umhverfisstarfi skóla og hvernig unga fólkið á þátt í jákvæðum breytingum í umhverfismálum sem ná út í nærsamfélag þeirra.“
Fyrsta umhverfisvottaða byggingarfyrirtækið
Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Jáverk sem handhafa Kuðungsins 2022 kemur fram að Jáverk hafi verið fyrsta umhverfisvottaða byggingarfyrirtækið á Íslandi, en fyrirtækið varð í fyrra Svansleyfishafi. Jáverk hefur í starfi sínu innleitt nýjungar sem sýna samfélagslega ábyrgð. Þannig lífsferilsgreina þau öll verk og reikna innbyggt kolefni bygginga og orkunýtingu í Svansvottuðum verkefnum. Um 35% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu má rekja til byggingariðnaðarins og segir dómnefnd framlag Jáverks til umhverfismála því mikilvægt.
Rík áhersla sem fyrirtækið leggi á fræðslu starfsfólks sé ekki síður lofsverð. Starfsfólk Jáverk hlýtur m.a. þjálfun í efnisflokkun og þá fá verkstjórar þjálfun í vottunum og grunnumhverfisfræðslu. Fræðslan hefur haft jákvæð áhrif og aukið umhverfisvitund starfsmanna og eru undirverktakar í stórum stíl byrjaðir að óska eftir sambærilegri þjálfun.
Verðlaunagripurinn Kuðungurinn er hannaður af þeim Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur hjá Fléttu hönnunarstofu, en þær hafa sérhæft sig í að hanna úr endurnýttum efnivið. Við hönnun og framleiðslu Kuðungsins settu þær sér fastar skorður og nýttu til þess eingöngu endurnýttan efnivið eða afgangsefni frá annarri framleiðslu. Grunnur verðlaunagripsins er gerður úr lituðu timbri frá Sorpu sem annars færi til urðunar, og á toppnum trónir steinn sem minnir á hrafntinnu en er í raun aukaafurð frá framleiðslu steinullar hér á landi. Hráefnin koma svo saman í spíral og vísar formið þannig til kuðungsins sem verðlaunin eru kennd við.
Jáverk öðlast rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.
Í dómnefnd sátu Kristín Amy Dyer, formaður, Brynjólfur Bjarnason, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Auður Alfa Ólafsdóttir f.h. Alþýðusambands Íslands og Jóhannes Bjarki Urbanic Tómasson, f.h. félagasamtaka á sviði umhverfisverndar.