-11.6 C
Selfoss

Allir vinir á vellinum

Borgfirðingurinn Arnar Víðir Jónsson birti mynd af sér og Hvergerðingnum Hafsteini Þór Auðunssyni fyrir þriðja leik Skallagríms og Hamars sem fram fór þann 19. apríl sl. Þar sem þeir félagar og gamlir bekkjarbræður úr ML, sjást lesa héraðsblöð hvors annars. Hafsteinn les Skessuhorn, fréttablað á Vesturlandi og Arnar les okkar eigin Dagskrá.

Myndin var birt í kjölfarið á miklu fjaðrafoki sem varð á samfélagsmiðlum eftir að Borgnesingar tóku upp fréttablað þegar Hamarsmenn voru kynntir inn á völlinn í öðrum leik liðanna um laust sæti í Subway-deild karla. Uppátækið fékk misgóðar viðtökur áhorfenda, en þessi gjörningur þekkist víða í íþróttaheiminum. Fjaðrafokið kom að líkindum til vegna þess að börn voru á vellinum að taka á móti leikmönnum fyrir leik og kom það illa við marga.

Við myndina skrifar Arnar: „Þá er það leikur 3 í þessu geggjaða einvígi hjá Skallagrím og Hamri. Við félagarnir ákváðum að skiptast á héraðsblöðunum og forvitnast um hvað væri að gerast hjá hvorum öðrum. Allir vinir,“ og vill með því undirstrika að allir séu vinir og að uppátækið hafi bara verið góðlátlegt grín.

Næsti leikur liðanna er á morgun, laugardaginn 22. apríl klukkan 18:00 í Borgarnesi. Þar geta Hamarsmenn tryggt sér þátttökurétt í Subway-deild karla næsta vetur en staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Hamri.

Fleiri myndbönd