-8.1 C
Selfoss

Ný Ölfusárbrú víkur fyrir göngum undir Selfoss – íbúafundur á Sviðinu

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur staðfest, í samtali við dfs.is, að vikið hafi verið frá þeirri ákvörðun að reisa nýja Ölfusárbrú austan við Selfoss. Í stað brúarinnar stendur til að byggja neðanjarðargöng sem munu liggja frá nýja hringtorginu á Suðurlandsvegi, undir Selfoss og enda nærri afleggjaranum að Uppsölum, austan við Selfoss. Vegna yfirvofandi breytinga hefur verið boðað til íbúafundar á Sviðinu í miðbæ Selfoss klukkan 13 í dag, þar sem Sigurður Ingi ætlar að kynna þessa byltingakenndu samgöngubót fyrir íbúum.

Arðbært verkefni

„Göngin verða tvíþætt, annarsvegar svokölluð botngöng, sett saman úr forsteyptum einingum sem sökkt verður í skurð sem grafinn verður í Ölfusá, og hinsvegar hefðbundin jarðgöng sem taka við af botngöngunum. Þau verða í heild 5,7 kílómetrar að lengd og munu mest fara niður á um 20 metra dýpi, undir Ölfusá, en bergþekja yfir göngunum þarf að ná 13,8 m. Þessi framkvæmd er að vísu svolítið kostnaðarsamari en brúin, en félagshagfræðileg greining styður þessa ákvörðun sem samræmist nýrri fjármálaáætlun íslenska ríkisins, enda arðbært verkefni. Í fjármálaáætluninni kemur fram að göngin komi til með að kosta mun minna til lengri tíma litið og kostnaðurinn dreifist yfir lengri tíma, viðhaldið á göngunum krefst einnig mun minni vinnu en brúarinnar og umferðaröryggi eykst til muna, sérstaklega með það til hliðsjónar að samhliða framkvæmdinni verður Austurvegurinn gerður að borgargötu, gerður meira aðlaðandi og hámarkshraði lækkaður niður í 30 km/klst,“ segir Sigurður Ingi í samtali við dfs.is

Bætt loftgæði og aukið öryggi

Sigurður Ingi bætir við að með göngunum komi íslenska ríkið til móts við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. „Við bindum vonir við að með þessari breytingu verði mögulegt að minnka verulega umferðarþunga bæði í gegnum og í kringum Selfoss og auka þar með öryggi íbúa og vegfarenda. Í ofanálag kemur þetta til með að minnka mengun á svæðinu og stuðlar að bættum loftgæðum Selfyssinga, auk þess að skógræktin í Hellisskógi getur haldið áfram að blómstra sem aldrei fyrr og ætti ekki að verða fyrir raski að mannavöldum með gatnagerð og tilheyrandi, eins og til stóð með brúarsmíðinni.“

Lyfta upp í miðbæinn

Sigurður Ingi segir þá staðreynd að engin hljóðmengun eða truflun frá umferð þungaflutningabíla og ferðamanna í og í kringum bæinn eigi eftir að gera Selfoss að náttúruverndarparadís. „Hugmyndum um að gera lyftu úr göngunum upp í miðbæ Selfoss hefur verið vel tekið og höfum við hafið viðræður við Sigtún þróunarfélag um möguleikann á þeirri framkvæmd.“

Frábært tækifæri fyrir Selfyssinga

Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtúns Þróunarfélags, var kampakátur þegar blaðamaður náði tali af honum. „Við lítum á þetta sem frábært tækifæri fyrir Selfyssinga. Vonir standa til um að við fáum að útbúa stórt bílastæði sem yrði aðgengilegt úr göngunum og fólk gæti tekið lyftu beint upp í miðbæinn. Með þessu sjáum við fyrir okkur að fólk komi til með að geta notið tímans á Selfossi betur í rólegra umhverfi og okkur finnst frábært að Austurvegur verði gerður að borgargötu, bæjarbúum og gestum í hag. Við munum taka við keflinu á eftir Sigurði Inga og segja betur frá fyrirhuguðum áætlunum Sigtúns Þróunarfélags á íbúafundinum í dag.“

Fleiri myndbönd