-7.1 C
Selfoss

„Gott parasamband þýðir ekki áreynslulaust samband“

Theodór Francis Birgisson er fjögurra barna faðir og sex barna afi. Theodór, eða Teddi eins og hann er gjarnan kallaður, býr á Selfossi en er borinn og barnfæddur Reykvíkingur sem varð ungur pabbi og byrjaði ungur að búa með konu sinni, Katrínu Katrínardóttur sem ættuð er frá Eyrarbakka. Teddi er klínískur félagsráðgjafi sem sérhæfir sig í hjóna- og sambandsráðgjöf hjá Lausninni, fjölskyldu- og áfallamiðstöð. Teddi hefur komið víða við, en hann lærði guðfræði í Kanada og var sóknarprestur hjá Hvítasunnukirkjunni og gegndi, á tíu ára tímabili, prestmennsku á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík. Blaðamaður dfs.is kíkti í kaffi til Tedda og fékk að vita meira um bakgrunn hans og paranámskeiðið Gerum gott betra sem hann ætlar að bjóða uppá í Tryggvaskála þann 1. apríl næstkomandi.

„Ég elska hana meira en heimilisfangið“

Kata og Teddi á góðum degi.

„Árið 2003 fór konan mín í félagsráðgjafanám en ég ætlaði alltaf að verða sálfræðingur þegar ég var búinn með guðfræðina og var alveg ákveðinn í að þegar ég myndi hætta að vinna sem prestur ætlaði ég að lesa sálfræði og verða sálfræðingur, en þegar ég sá kennsluefnið sem hún Kata mín var að lesa í félagsráðgjöf þá sagði ég bara „ég er félagsráðgjafi, ég á bara eftir að klára námið“ og fór þá í félagsráðgjafanám, ég byrjaði í Danmörku, það kom nú ekki endilega til af góðu, við misstum aleiguna í hruninu og það var mjög sársaukafullt en við höfum allt okkar líf verið í því að hjálpa fólki að breyta sorg í sigur svo við ákváðum að breyta okkar eigin sorg í sigur sem var miklu erfiðara en að leiðbeina öðrum. En við fórum út og ég hefði gjarnan viljað vera í þrjátíu ár í Danmörku, en mín heittelskaða vildi koma aftur heim og ég elska hana meira en heimilisfangið og við bara fluttum heim. Þá kláraði ég námið í HÍ, tók grunn í almennri félagsráðgjöf og svo master í klínískri félagsráðgjöf og, bara eins og íslenskur almenningur gerir, vann allan tímann með,“ segir Teddi og brosir út í eitt.

Fjölbreytt lausn

Teddi kom inn í rekstur Lausnarinnar fyrir 11 árum, en fyrirtækið var til fyrir. „Það voru tveir kallar sem leigðu saman litla skrifstofu og ég kom þar inn. Síðan er allskonar búið að gerast og í dag er Lausnin nú svona tiltölulega stór þannig séð, við erum að þjónusta kannski svona 11-1200 upp í 1500 einstaklinga á mánuði og erum með höfuðstöðvar í stóru rými í Ármúlanum, fjóra starfsmenn hér á Selfossi og svo erum við með starfsstöð á Akureyri og svo er einn af okkar þerapistum sem á erlendan maka og býr úti í Bandaríkjunum og er í viðtölum „online“ fyrir okkur einn dag í viku. Þannig að starfsemin er orðin svolítið viðamikil og það eru 21 einstaklingur í dag sem hefur atvinnu af Lausninni, ekki allir í fullu starfi, en við erum með mjög fjölbreyttan bakgrunn. Við erum með talsvert af félagsráðgjöfum, fjölskyldufræðingum, sálfræðingum og sálmeðferðarfræðingum eða phsychotherapistum sem er ekki kennt hér á Íslandi. Við þjónustum til dæmis pólska markaðinn ágætlega, erum með þrjá pólska sálfræðinga í vinnu hjá okkur. Við erum að gera allskonar, vinnum bæði fyrir einstaklinga og fyrir barnaverndir og handleiðum einstaklinga í fyrirtækjum, erum að handleiða svolítið af starfsmönnum í til dæmis félagsmálanefnd, starfsfólk sem vinnur hjá barnavernd. Við erum líka góðkunningjar lögreglunnar, við handleiðum mikið fyrir lögregluna og erum með allt frá einstaklingsviðtölum upp í stór fjölskylduviðtöl þar sem við erum að reyna að hjálpa fólki að finna ástæðuna fyrir því af hverju þau eru að rífast, það eru oft allir búnir að gleyma því fimm eða fimmtán árum seinna,“ segir Teddi og hlær.

„Við erum sammála okkur“

„Við erum bara að reyna að hjálpa fólki að átta sig á að við getum breytt ótrúlega miklu bara með því að horfa aðeins inn á við og athuga að kannski hafi hinn aðilinn rétt fyrir sér, kannski er ég ekki sá eini sem hef rétt fyrir mér. Því maðurinn er þannig, homo sapiens, að við erum sammála okkur, vegna þess að minn sannleikur er raunveruleiki fyrir mig, en svo þarf ég að vita að hann er ekki eini sannleikurinn. Svo er kannski bara maki minn eða börnin mín líka með sannleikann og hann er ekkert minni sannleikur heldur en minn, þannig að við vinnum svolítið með það,“ segir Teddi.

Fullkomin pör eru ekki til

Hjónin á ferðalagi.

Teddi vinnur nánast eingöngu með pörum. „Svo er mín heittelskaða, sem vinnur líka niðri á stofu þegar hún er ekki að mála,  nánast eingöngu í „trauma“viðbrögðum. Við höfum þjálfað talsverðan hluta af okkar starfsfólki í áfallavinnu og erum þannig að vinna eftir gagnrýndum rannsóknaraðferðum sem hafa skilað gríðarlega miklum árangri. Við erum í allskonar viðtölum, en ég er sem fyrr segir, langmest í paravinnu. Ég hef haldið mikinn fjölda af paranámskeiðum sem öll eiga það sameiginlegt að vera þriggja tíma örnámskeið en núna er ég að setja af stað þetta námskeið sem ég kalla Gerum gott betra, sem er ekki ætlað fyrir par sem er í algjörum henglum að ætla að koma og redda málunum, heldur par sem er ákveðið í að ætla að vinna í sínum málum og er með allavega þann grunn að ætla að vinna saman. Ég er heldur ekki að leita að fullkomnum pörum því þau eru ekki til, ég hef aldrei hitt svoleiðis fólk. Heldur bara pör sem vilja gera góða sambandið sitt aðeins betra.“

Leynigestur í saumabklúbb

„Það hittist þannig á að þegar við búum í svona litlu samfélagi að ég fæ kannski stelpu til mín sem segir mér að þær séu fjórar vinkonur sem séu allar hjá mér og allar saman í saumaklúbb þá þarf ég náttúrulega einhverntímann að mæta sem leynigestur í saumaklúbbinn. Ég hugsa að ef ég yrði beðinn um það myndi ég örugglega slá til, það væri alveg nógu fyndið til þess að gera það, segir Teddi og hlær.“

Hverju getum við breytt?

Teddi hefur gert samkomulag við vini sína í Tryggvaskála um námskeiðið Gerum gott betra, sem haldið verður þar þann 1. apríl. „Á námskeiðinu, sem er blanda af beinni fræðslu og  verkefnum þar sem fólk er beðið um að svara spurningum, býð ég fólki að koma og eyða með mér 6 klst. Við skiptum upp í hópa og ræðum málin þannig að þetta er alveg „intense“. Við höfum verið með samskonar námskeið í Reykjavík, á öðru formi, fyrir annan markhóp, þar sem námskeiðin eru heilan laugardag en svo er þetta vel þekkt erlendis frá að halda þessi „intense“ námskeið þar sem við erum virkilega að fara ofaní dýptina og athuga hverju við getum breytt.“

„Það er ótrúleg gjöf að sofna glaður og vakna glaður“

Teddi og Kata á góðri stund.

Innifalið í námskeiðinu eru öll námskeiðsgögn og léttar veitingar í hádeginu. „Ég takmarka fjöldann á námskeiðinu, ég vil ekki fá fleiri en 10 pör. Ef við værum bara að hugsa um að búa til peninga í starfsemi Lausnarinnar þá hugsa ég að við værum bara með einhverja heildverslun, við erum að hugsa um að bæta lífsgæði fólks. Það er ótrúleg gjöf að sofna glaður og vakna glaður. Fyrir einstakling eins og mig sem fæ að lifa í þannig umhverfi dagsdaglega, þá á ég ekki sterkari löngun fyrir neinn af mínum samferðamönnum en að fá að upplifa það sama. Og ef ég veit leiðina þangað, þá er ákveðin ábyrgð fólgin í því að segja ekki frá, þess vegna vil ég setja upp svona námskeið. Auðvitað kostar allt svona umstang og ég væri hræsnari ef ég segði að ég vildi ekki hafa laun, en vegna þess að við erum að hugsa um að fara á dýptina vil ég ekki fá fleiri pör á námskeiðið. Ég vil að þessi pör nái að bæta sambandið sitt og þó að ég viti að í litlu bæjarfélagi eins og okkar gætu vinir hist á þessu námskeiði þá á það ekki að verða neitt vandræðalegt. Mig langar að láta á þetta reyna þar sem ég vil að Árborgarsvæðið fái sem bestu þjónustu frá mínu fyrirtæki þó að við séum með höfuðstöðvar í Reykjavík. Meðeigendur mínir á stofunni hafa verið með paranámskeið í Reykjavík, sem er að mörgu leyti sams konar, aðeins önnur nálgun og annað kennsluefni og það hefur reynst mjög vel, og ég hef hvatt þau til að koma með þetta hingað á Selfoss, en það er víst þannig að Selfoss er miklu lengra frá Reykjavík en Reykjavík er frá Selfossi“ segir Teddi og glottir.

Selfyssingur í hjartanu

„Þó að ég sé Reykvíkingur þá erum við búin að búa hérna í fjöldamörg ár. Það hefur verið gert grín að því í mínum vinahópi, að ég sé eins og Geir Jón Þórisson vinur minn, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, sem er náttúrulega ekkert frá Vestmannaeyjum, hann fæddist í 101 Reykjavík og ólst upp í Reykjavík, giftist síðan dásamlegri konu sem á ættir að rekja til Vestmannaeyja og talar alltaf eins og hann sé Vestmannaeyingur og í hjarta hans er hann Vestmannaeyingur. Með sama hætti er ég Selfyssingur þó að ég sé alinn upp í Reykajvík og vinir mínir gera grín að því að ég sé að verða eins og Geir Jón, en hér bý ég, ég elska að búa hér, ég ætla að deyja í þessu bæjarfélagi og ég vil gjarnan að mitt fyrirtæki stuðli að því að hérna sé góð þjónusta og þess vegna erum við til dæmis með starfsstöð hér. Það er búið að biðja okkur um að koma út um allt en við höfum ekki viljað það því við viljum ekki vera einhvers staðar þar sem við getum ekki sinnt því vel. Hér á Selfossi erum við með fína starfsemi og sex af 21 starfsmanni Lausnarinnar búa á Selfossi. Selfoss er því stór hluti af Lausninni og á meðan ég á minn hlut í henni mun Selfoss alltaf skipta máli. Þess vegna langar mig að hafa þetta nýja námskeið fyrst hér á Selfossi og síðan athuga ég hvað ég geri varðandi Reykjavík. Það er búið að biðja mig um að gera þetta í þar, ég hef fengið talsverð viðbrögð eftir að við kynntum þetta námskeið á Selfossi, fólk er að spyrja hvort þetta verði ekki í Reykjavík. Svarið er nei, ekki strax. Við viljum byrja á að bjóða Selfyssingum að koma, þetta er dálítið „Selfyssh“, ég veit,“segir Teddi og hlær að orðagríninu.

Teddi vill versla og bjóða upp á þjónustu í heimabyggð. „Þetta er viðleitni mín til að sinna þjónustu hér, ég vil að fólk finni þjónustu hér, ég til dæmis kappkosta við að kaupa gjafavöru hér á Selfossi vegna þess að ég vil að viðskiptin séu hér, og ef ég þarf að setja bíl á verkstæði þá er það hér, ef ég þarf að fá iðnaðarmann þá er hann héðan, ég versla í heimabyggð. Þetta er svolítið sú pæling, ég vil bjóða Selfyssingum og nærsveitungum upp á þjónustu hér.“

Staðfastur, ekki þrjóskur

„Við Kata höfum unnið í miklu fleiri ár saman en í sitthvoru lagi, það er mjög einföld

Teddi og Kata sem ræður heima… og í vinnunni.

verkskipting. Hún ræður hér heima og í vinnunni,“ segir Teddi og skellir uppúr. “Ég þykist ráða í vinnunni en við höfum náð að eiga mjög gott samstarf og náð að virkja styrkleika hvors annars og það er í grunninn það sem ég vil fá að kenna öðrum. Þegar fólk spyr okkur til dæmis hvernig okkur hafi tekist að búa til svona gott samband, svona mörgum árum seinna, þá er svarið svo rosalega einfalt, við erum ekki búin að því, við erum enn að. Við veljum hvert annað og veljum að standa með hvoru öðru, trúum á hvort annað og fyrirgefum hvoru öðru, því auðvitað gerum við allskonar vitleysu og allskonar mistök og svo er allskonar álag á okkur líka og á okkar heimili sem er bara fallegt. Þegar ég tala um gott parasamband þá er ég ekki að tala um áreynslulaust samband, Kata er til dæmis gríðarlega þrjósk og ég er mjög staðfastur, ekki þrjóskur, staðfastur,“ segir Teddi hlæjandi að lokum.

Skráning á Gerum gott betra fer fram á lausnin.is.

Fleiri myndbönd