Tvö Íslandsmet voru sett í gær á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Selfossi um helgina. Karlasveit FH bætti Íslandsmetið í 4×100 m boðhlaupi félagssveita um 0,71 sek., hljóp á 41,15 sek. Sveitina skipuðu Kolbeinn Höður Gunnarsson, Ari Bragi Kárason, Dagur Andri Einarsson og Kristófer Þorgrímsson. Þá setti kvennasveit ÍR einnig Íslandsmet í 4×100 m boðhlaupi félagssveita. Sveitin hljóp á 46,42 sek. og bætti metið um 0,46 sek. Sveitina skipuðu Tiana Ósk Whitworth, Katrín Antonsdóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Ásdís Hjálmsdóttir setti meistaramótsmet er hún kastaði spjóti 56,75 m.
Mikil keppni var í 100 m hlaupi karla. Kolbeinn Höður og Ari Bragi komu hnífjafnir í mark á sama tíma 10,89 sek. Kolbeini var dæmdur sigur á sjónarmuni. Juan Ramon Bosque og Björgvin Brynjarsson komu einnig jafnir á mark á tímanum 11,20 se. Juan Ramon var dæmdur sjónarmun á undan og hlaut því þriðja sætið.
Tveir keppendur frá HSK/Selfoss urðu Íslandsmeistarar. Guðrún Heiða Bjarnadóttir sigraði í langstökki, stökk 5,78 m og Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 1.500 m hlaupi, hljóp á tímanum 4:00,40 mín. Þá varð Ástþór Jón Tryggvason annar í 3.000 metra hindrunarhlaupi á 10:37,26 mín. Þess má geta að þetta var í fyrsta skipti sem keppt er í hindrunarhlaupi á Selvossvelli.
Mótið hófst kl. 11 í morgun og lýkur með 4×400 m boðhlaupum karla og kvenna. Þau fara fram um kl. 16.